Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 36

Um skiptin á klæðunum Kristí

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Stríðsmenn þá höfðu krossfest Krist
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fer- og þríkvætt ababcdcd
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Hvað mundi vera hjartað mitt
1.
Stríðsmenn þá höfðu krossfest Krist
klæðnað hans tóku snart,
skiptu í staði fjóra fyrst,
fá skyldi hvör sinn part.
Á kyrtil prjónaðan ljóst með list
lögðu þeir hlutfall djarft.
Fólskuverk meðan fullgjörðist
fólkið á horfði margt.

2.
Ritning sú eina uppfylld er,
áður var þar um skráð:
Skrúða mínum þeir skiptu sér.
Skýrlega so er tjáð:
Hlutfallið yfir fat mitt fer,
fæ eg þess einninn gáð.
Set, maður, slíkt fyr sjónir þér,
sjá drottins miklu náð.

3.
Nú máttu skilja, nakinn var
negldur drottinn á kross.
Opinbert sáu allir þar
útrunninn dreyra foss.
Soddan forsmán Guðs sonur bar
sannlega fyrir oss.
Hér bauðst öllum án hylmingar
himneskt miskunnarhnoss.

4.
Kalla eg merki klæðin hans
kristnina í heimi hér.
Um fjórar álfur foldarranns
flokkur sá dreifði sér.
Lífkyrtill þessi lausnarans
líknarorð blessað er.
Vilji því skipta skynsemd manns,
skilning sannleiksins þver.

5.
Ei lét vor drottinn auðlegð há
eftir í þessum heim,
klæðin sem hann bar holdi á
en hvörki gull né seim.
Þó mátti ei hans móðir fá
hið minnsta af öllum þeim.
Illir menn hendi yfir þau slá.
Aldrei því dæmi gleym.

6.
Safna hóflega heimsins auð,
hugsýkin sturlar geð.
Þigg af drottni þitt daglegt brauð,
duga lát þér þar með.
Holdið þá jörðin hylur rauð
hlotnast má ýmsum féð.
So þig ei ginni girndin snauð
gæt vel hvað hér er skeð.

7.
Stríðsmanna heift og harðýðge
herrans kvöl gat ei mýkt,
þó viti nóg hann særður sé,
sinnið var illskuríkt.
Þeir, sem fátækan fletta fé,
fólskuverk drýgja slíkt.
Guð láti þig ekki glæp þann ske
að gjörir annað þvílíkt.

8.
Nakinn á krossi hékkstu hér,
herra minn, Guð og mann.
Fullnaðarborgun fengin er
fyrir mig syndugan.
Þá fórn drottinn og sál mín sér
sú gleðst en blíðkast hann.
Brullaupsklæðnað til bjóstu mér
þann besta eg girnast kann.

9.
Hentuglega féll hlutur sá,
herra minn, Jesú kær.
Þú lést mig auman finna og fá
fagnaðarorð þín skær.
Þeim klæðafaldi þreifa eg á
þegar mig hryggðin slær.
Straumur eymdanna stöðvast þá,
styrk nýjan hjartað fær.

10.
Hér þó nú skipti heimurinn
hlæjandi auði sín
endast sá glaumur eitthvört sinn
þá ævin lífsins dvín.
Láttu mér hlotnast, herra minn,
hlutfall næst krossi þín
so dýrðar fegursti dreyri þinn
drjúpi á sálu mín.


Athugagreinar

Amen

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 154–157)