Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 16

Um Júdasar iðrun

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Júdas í girndar gráði
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) þríkvætt AbAbcDDc
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Af hjarta, hug og munni
1.
Júdas í girndargráði
af Gyðingunum fyrst
þrjátíu peninga þáði,
því sveik hann herrann Krist.
Ljóst þegar líta vann,
drottinn var nú til dauða
dæmdur og þungra nauða,
iðraðist eftir hann.

2.
Greitt í musterið gengur,
greinir svo ritning frá,
um silfrið sinnti ei lengur,
senn vill það prestum fá,
sagði með sárum móð:
Ó, hvað eg gjörði illa
þá yfir mig kom sú villa
að sveik eg saklaust blóð.

3.
Liðsemd prestarnir lögðu
litla, sem von var að,
harðlyndir honum sögðu:
Hvað eigum vær með það?
Þú mátt einn sjá um þig.
Silfrinu á gólfið grýtti,
gekk þaðan, mjeg sér flýtti,
og hengdi sjálfan sig.

4.
Ráðstefnu herrar héldu,
hættu þar síðast við,
fyr akur sjálfir seldu
silfrið leirkerasmið.
Áður sagt um það var
í spádómssögnum sönnum.
Sá var vegferðarmönnum
gefinn til greftrunar.

5.
Sjá hér hvað illan enda
ótryggð og svikin fá.
Júdasar líkar lenda
leiksbróður sínum hjá.
Andskotinn illskuflár
enn hefur snöru snúna
snögglega þeim til búna
sem fara með fals og dár.

6.
Ótrú sinn eigin herra
ætíð um hálsinn sló.
Enginn fékk af því verra
en sá meinlausum bjó
forræði, fals og vél.
Júdas því henging henti,
hann fölskum til sín benti
eins og Akítófel.

7.
Fégirndin Júdas felldi,
fyrst var hans aðtekt sú,
Guðs son Gyðingum seldi,
gleymdi því æru og trú.
So til um síðir gekk.
Kastaði keyptum auði
þá kvaldi sorg og dauði,
huggun alls öngva fékk.

8.
Undirrót allra lasta
ágirndin kölluð er.
Frómleika frá sér kasta
fjárplógsmenn ágjarner
sem freklega elska féð.
Auði með okri safna,
andlegri blessun hafna
en setja sál í veð.

9.
Annaðhvört er í vonum,
auðurinn fagur nú
hafnar þér ellegar honum
hryggur burt kastar þú
þá dauðinn þrengir að.
Ágirndin ótæpt svelgir,
af því sálina velgir
í köldum kvalastað.

10.
Falsi og fégirnd rangri
forða þér, sál mín blíð,
so mætir ei ógn né angri
þá að fer dauðans tíð.
Virð lítils veraldarplóg.
Hvör sem sér lynda lætur
það lénar drottinn mætur,
sá hefur allsnægta nóg.

11.
Oft Jesús áður hafði
áminning Júdas gert.
Hrekkvísin hjartað vafði,
hann hélt það einskisvert.
Nú kom þar einnig að,
tilsögn hataði hreina,
huggun fékk því ei neina.
Varastu víti það.

12.
En hvað fram leiddi hann illa
áður lífernið sitt.
Þessi þó var hans villa
verri en allt annað hitt
að hann örvænting með
sál og líf setti í vanda.
Synd á mót heilögum anda
held eg hér hafi skeð.

13.
Í drottni ef viltu deyja
drottni þá lifðu hér.
Til ills lát ei þig teygja,
orð Guðs sé kærast þér.
Sæll er sá so við býst.
En ef þig ófall hendir
aftur í tíma vendir,
undan drag iðrun síst.

14.
Brot þín skalt bljúgur játa
en bið þó Guð um náð,
af hjarta hryggur gráta
en heilnæm þiggja ráð.
Umfram allt þenktu þó:
Son Guðs bar þínar syndir
og so þú miskunn fyndir,
saklaus fyr sekan dó.

15.
Drottinn, lát mig ei dyljast
dárlega syndir við
þó hér um stund megi hyljast.
Herra trúr, þess eg bið:
Nær heimi fer eg frá
örvænting ei mér grandi,
orð þitt og sannleiksandi
hjartað mitt huggi þá.


Athugagreinar

Amen