Heilla ljúfasti herra minn | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Heilla ljúfasti herra minn

Fyrsta ljóðlína:Heilla ljúfasti herra minn
bls.81–83
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Sálmurinn Heilla ljúfasti herra minn er afbrigði af griplum þar sem lesa má orðin „Hallgríms andvarpan“ út úr fyrstu stöfum hvers erindis og fyrsta orði þess síðasta.
Heilla ljúfasti herra minn
Dagleg andvarpan
Tón: Hvör sem að reisir hæga byggð, etc.
1.
Heilla ljúfasti herra minn,
hjartans útvaldra yndi,
uppveki mig nú andinn þinn
endurnæring so fyndi.
Eg er manneskjan alsaurguð,
afplána það lifandi Guð,
gef mér glaðværðar yndi.
2.
Ásetning minn og iðjulag
eg þenkti að lagfæra,
þér til dýrðar að þjóna í dag,
það veistu, náðin skæra.
En hvörninn hefi eg aum mannkind
áreitað þig með margri synd;
það virstu að lagfæra.
3.
Lífdaga minna lýtin öll
lækna þú, drottinn blíði,
og mig hvítfága eins og mjöll
öngvu svo meini kvíði.
Æ mig angrar af allri rót
að eg gjörði þér syndga mót,
heilla faðirinn fríði.
4.
Langar mig nú af lífi og sál
lausn hjá þér, drottinn, finna.
Þér er nú, faðir, meir en mál
meinanna bót að vinna.
Sætasti brunnur svölunar,
signað herbergi vellystar,
lát mig þér lofgjörð inna.
5.
Græði nú öll mín syndasár
signaðar Jesú undir.
Himneska föðurs höndin klár,
hún sé yfir og undir.
Ókvíðin er þá öndin mín,
í blíðum náðarfaðmi þín
líði so lífsins stundir.
6.
Réttlætis fagur kvistur klár,
konungur dýrðar sæti,
engla fegurð um eilíf ár,
útvaldra sálarkæti,
allra trúaðra elska og von
er Jesús Guðs og Maríu son.
Gef þess eg jafnan gæti.
7.
Innræt þú, drottinn, orðið þitt
í mitt hjarta og sinni.
Það sé lífdaga ljósið mitt
lifnað so bæta kynni.
Eftir því lát minn greiðast gang
í gæsku þinnar og náðarfang.
Þar so þér þakkir inni.
8.
Miskunnar þinnar mjúku náð
mikla eg ævi mína,
mildasti Jesú, meyjarsáð,
minnstu á barnkind þína.
Faðma mig að þér, faðir minn,
fyrir eingetna soninn þinn
lát ekki liðsemd dvína.
9.
Set eg nú allt mitt traust og trú
til þín, minn Jesú góði,
að mig af ástsemd elskir þú
og ádreifir þínu blóði.
Æ meðan varir ævin mín
útbreiða vil eg lofgjörð þín
bæði hátt og í hljóði.
10.
Andvarpan þessa, æðsti Guð,
álíttu í miskunn þinni,
hjástoð veittu í hverri nauð,
hygg að grátbeiðni minni.
Láttu mig ætíð lifa þér,
líka deyja þá burtu fer.
Lof þitt aldregi linni.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 81–83. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir Andlegir sálmar og kvæði (Hallgrímskveri) á Hólum 1770 en það er fyrsta prentun sálmsins. Einnig er sálmurinn varðveittur í JS 272 4to I, bl. 145v–146v)