Þriðji kvöldsálmur | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Þriðji kvöldsálmur

Fyrsta ljóðlína:Kominn er dagur kveldi að
bls.89
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar
Tón: Guð, vor faðir, þér þökkum vér

1.
Kominn er dagur kvöldi að,
klingjum því lofið skæra.
Heiðrum vorn Guð í hvörjum stað,
honum sé prís og æra
fyrir líf heilsu og lukkunot,
líknarskjöldur *og festislot,
hann vill oss vernda og næra.

2.
Forlát þú oss, ó, faðir kær,
framferðið syndarinnar.
Gjörvöll vor vinna, bú og bær
blessunar njóti þinnar.
Í voru hjartans húsi nú
heilagt ljósið uppkveiki trú
með geisla gáfu sinnar.

3.
Þig biðjum vér um þessa nótt
þín tilsjón yfir oss vaki
að vér svo hvílunst hægt og rótt,
háskasemd engin saki.
Aðstoð Guðs og hans englalið
andskotans forði vélum við
að fylgist hér friðurinn spaki.

4.
Vertu mér, Jesú herra, hjá
hjá þér svo megi eg nátta.
Helst þegar lífið lyktast á
lát mig í friði hátta.
Í þinn fagnaðarfaðm og fang
fel eg allan minn veg og gang.
Meðtak sál mína sátta.

(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 4, bls. 66—69). Í útgáfunni er sálmurinn tekin eftir Lbs 847 4to, bls. 214 sem varðveitir elstan texta, skrifað 1693. — Sálmurinn var fyrst prentaður í útgáfu Gríms Thomsens, Sálmar og kvæði II, bls. 89–90. — Sálmurinn er hvergi eignaður öðrum en Hallgrími. Hér eins og í ljóðmælum 4 er farið nákvæmlega eftir Lbs 847 4to nema hvað eins og í Ljóðmælum 4 er leiðrétt augljós villa í 1.6 þar sem í handriti er hefur verið skrifað ‘eg fyrir ‘og’.