Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Heilagi læknir, Kristi kær

Fyrsta ljóðlína:Heilagi læknir, Kristi kær
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt aabbcc
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Upphafsstafir hvers erindis í sálminum Heilagi læknir, Kristi kær mynda saman nafnið Hallgrímur og nefnist það stílbragð griplur (akrostikon). Þá eru níu fyrstu erindin ort með þeirri hind að síðasta orð hverrar braglínu eða upphaf þess verður upphafsorð þeirrar næstu. Stílbragð þetta hefur verið nefnt drögur (anadiplosis) en er í bundnu máli náskylt hinni fornu dunhendu. Síðasta erindið einkennist hins vegar af forklifun (anafóru) þar sem hver lína hefst á sama orði eða orðshluta.
Heilagi læknir, Kristi kær
Bænar ps(almur) um andlega og líkamlega nauðþurft.
Lag: Faðir vor sem á h[imnum ert].
1.
Heilagi læknir, Kristi kær,
kærleikann gef mér firr og nær;
nær sem eg hugsa um þín orð
orð þín mér vondum girndum forð,
forða mér vítis plágu og pín,
pínist þá ekki sálin mín.
2.
Á þér hefi eg trausta trú,
trúfastur jafnan reynist þú.
Þú veist mitt sinni, herra hreinn,
hreinni því finnst þér enginn einn.
Einn Guð og þrennur, minnstu mín,
mína sál langar heim til þín.
3.
Lifi eg hér við hryggðar heim,
heimili mitt, ó, drottinn, geym.
Geym mína sál frá sorg og sút,
sútir væta minn hryggðar klút.
Klútana legg á synda sár,
sár mín græði þín mildin klár.
4.
Legg þú nú bætur máli mín,
mín er trúin á gæsku þín.
Þín guðleg náð er mjúk og mild,
mild er oss jafnan þín góðvild.
Vilda eg, drottinn, þóknast þér,
þér að færa lofgjörð sem ber.
5.
Gef að eg dauðann óttist ei,
eigi eg uppá veröld þrey,
þreyi eg eftir þinni náð,
þín náð veiti mér allgott ráð.
Ráð þú einn minni andlátsstund,
eg stunda á þinn náðarfund.
6.
Rauðasta Jesú benjablóð,
blóðið það hátt á krossi stóð,
stóð út af síðu opnri und,
undin sú blæddi langa stund.
Stundin sú fann oss bestu bót,
bót er oss fengin friðar fljót.
7.
Jafnlega kann eg segja af sorg,
sorgandi er oft mín hjartans borg,
borg minnar trúar, skaparinn skýr,
skýrleikinn sá mér gleði býr,
býr um míns hjarta angur allt,
allt so vermist mitt hjartað kalt.
8.
Meðkenni eg mína sök og synd,
syndum hlaðinn er eg, þín mynd,
mynd þína *saurgar *glæpager,
geri eg ei það bauðstu mér.
Mér liggur ok á herðum hart,
hart so að mæðist lífið snart.
9.
Vil eg nú feginn, herra hýr,
hýr þig um biðja, náðin dýr,
dýrstur í mínu brjósti bú,
búinn þér játa hreinni trú.
Trúin mín rétt því megna má
má ei djöfullinn orka á.
10.
Ráð þú mér, drottinn, rétt á frón
ráði mér Jesús, það er mín bón,
ráðin Jesú mér reynist vel,
ráðunum Jesú eg mig fel.
Ráð, helgi andi, raunum mín,
ráði mér eilíf gæskan þín.
(Hallgrímur Pétursson: Ljóðmæli 3, bls. 73–76. Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 272 4to I, bl. 164v–165r, en auk þess er hann varðveittur heill í handritunum: Lbs 1724 8vo, bls. 109–110, og JS 272 4to II, bl. 371v–372v. Þá eru lok sálmsins varðveitt í JS 208 8vo, bls. 243, en síður vantar í handritið þar fyrir framan.)
Lesbrigði:
8/3 Hér byrjar 208. saurga] saurgar 208, 1724. saurga 272 I. glæpa-] þannig 208, 1724, 272 II. glapa 272 I.