Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 3

Um herrans Kristí dauðastríð í grasgarðinum

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Enn vil eg, sál mín, upp á ný
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) ferkvætt aabbcc
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Með lag: Faðir vor sem á himnum ert
1.
Enn vil eg, sál mín, upp á ný
upphaf taka á máli því:
Upp stóð Jesús þó þreyttur sé
þrisvar sinnum frá bæninne.
Lærisveinarnir sváfu fast.
Sankti Pétur því ávítast.

2.
Til og frá gekk hann þrisvar þó.
Þar fékkst ei minnsta hvíld né ró.
Undanfæri því ekkert fann,
alls staðar drottins reiði brann.
Gegnum hold, æðar, blóð og bein
blossi guðlegrar heiftar skein.

3.
Himnaljósið var honum byrgt,
helst því af nótt var orðið myrkt,
ástvinahuggun öngva fann,
allir sváfu um tíma þann.
Jörðin var honum óhæg eins,
engin fékkst bót til þessa neins.

4.
Í þessum spegli það sé eg,
þeim sem drottinn er reiður mjeg
hvörki verður til huggunar
himinn, jörð, ljós né skepnurnar.
Án Guðs náðar er allt um kring
eymd, mæða, kvöl og fordæming.

5.
Framar sést hér hvað fárleg sé
fordæmdra kvöl í helvíte.
Frá einni plágu til annarrar
í ystu myrkrum þeir hrekjast þar.
Ó, hvað syndin afskapleg er,
allt þetta leiðir hún með sér.

6.
Í þriðja máta af þessu sést,
það lær þú, sál mín, allra best,
Guðs reiðield og eilíft fár
útslökktu og lægðu herrans tár.
Allt honum því til ama var
so allt verði þér til huggunar.

7.
Hryggðarsporin þín, herra minn,
í himnaríki mig leiða inn.
Í næturmyrkrum lá neyð á þér,
náðar og dýrðar ljós gafst mér.
Vinir þér öngva veittu stoð,
so vinskap fengi eg við sjálfan Guð.

8.
Þar kom loksins á þeirri tíð
þreytti Jesús við dauðann stríð.
Andlát mitt bæði og banasótt
blessaðist mér þá sömu nótt.
Dauðinn tapaði en drottinn vann,
dýrlegan sigur gaf mér þann.

9.
Á gekk so dauðans aflið ríkt,
ekkert dæmi má finnast slíkt,
allur líkami lausnarans
litaðist þá í blóði hans.
Sá dreyrasveitinn dundi á jörð,
drottins pína því mjög var hörð.

10.
Í Adams broti var blóðskuld gjörð,
bölvan leiddi það yfir jörð.
Jesú blóð hér til jarðar hné,
jörðin aftur so blessuð sé.
Ávöxtur, gróði og aldin klár
oss verða að notkun sérhvört ár.

11.
Sárkalda dauðans sveitabað
um síðir þá mér kemur að,
sárheiti dreyrasveiti þinn
sefi og mýki, Jesú minn.
Angistarsveita eilíft bál
aldrei lát snerta mína sál.

12.
Mér er so kvöl þín minnileg
á morgni hverjum þá upp stend eg.
Fyrst eg stíg niður fæti á jörð
færi eg þér hjartans þakkargjörð.
Blóðsveitinn þinn mér bið eg sé
blessun og vernd á jörðunne.

13.
Hörmung þá særir huga minn
hef ég mig strax í grasgarð þinn.
Dropana tíni ég dreyra þíns,
drottinn, í sjóðinn hjarta míns.
Það gjald alleina gildir best
hjá Guði fyrir mín afbrot verst.

14.
Upphaf alls mesta ófögnuðs,
áklögun ströng og reiði Guðs
bætt er, friðstillt og forlíkað,
faðirinn lét sér lynda það.
Sonurinn bar hans bræði frí,
borgaðist þrællinn út með því.

15.
Þess meir sem pínan þrengdi að
því innilegar Jesús bað.
Heilagur engill himnum frá
herra sinn kom að styrkja þá.
Enn hefur þú hér einn lærdóm,
iðka og lær hann, sál mín fróm.

16.
Ef hér verður sem oft kann ske
undandráttur á hjálpinne,
bið, styn, andvarpa æ þess meir
sem aukast vilja harmar þeir.
Föðurlegt hjarta hefur Guð
við hvörn sem líður kross og nauð.

17.
Sjá þú að engill sendur var
syni Guðs hér til huggunar.
Þeir góðu andar oss eru nær
alla tíma þá biðjum vær,
helst þá lífs enda líður að.
Lasarí dæmi kennir það.

18.
Heiður, lof, dýrð á himni og jörð,
hjartanleg ástar þakkargjörð,
drottinn Jesú, þér sætast sé
sungið af allri kristninne
fyrir stríðið, þig þjáði frekt.
Það er vort frelsi ævinlegt.


Athugagreinar

Amen.

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 32–36)