Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 30

Um Kristí krossburð

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Stríðsmenn Krist úr kápunni færðu
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Tunga mín af hjarta hljóði
1.
Stríðsmenn Krist úr kápunni færðu
og klæddu hann sínum búning í.
Sollnar undir sárt við hrærðu;
þær sviðu og blæddu upp á ný.
Á blessuðu sínu baki særðu
hann bar sinn kross og mæddist því.

2.
Skeði so á samri stundu,
Símon nokkurn bar þar að,
framandi maður er gekk um grundu,
gripu Júðar þann í stað,
krossinum á hans herðar hrundu
en hann gekkst nauðugur undir það.

3.
Þeir sem, sál mín, syndir drýgja
samviskunni þvert á mót,
undir drottins endurnýja
ef ekki gjöra á löstum bót.
Við skulum frá þeim flokki flýja
og fyrirgefningar biðja af rót.

4.
Upp á heimsins óþakklæti
er hér dæmi ljóst til sanns.
Margan læknaði son Guðs sæti
sjúkan meðal almúgans.
Nú var ei neinn sá bölið bæti
og bæri með honum krossinn hans.

5.
Símon bæði og syni hans báða
sjálf hér nefnir historían,
því guðhræddur skal njóta náða
og niðjar margir eftir hann.
Miskunnsemd við menn fáráða
minnast Guð og launa kann.

6.
Framandi maður mætti Kristi,
með honum bar hans þunga kross.
Hér má finna, hvörn það lysti,
hreina þýðing upp á oss:
Gyðingafólk þá Guðs náð missti,
gafst heiðingjum dýrðarhnoss.

7.
Syndaundir ýfast mínar
oft á hvörri stundu nær,
samviskunnar sár ei dvínar,
sviðameinið illa grær.
Blessaðar, Jesú, benjar þínar
bið eg mýki og lækni þær.

8.
Þessi krossins þunga byrði
þér var, drottinn, lögð á bak,
so fyrirmyndan fylld sú yrði
þá fórnarviðinn bar Ísak.
Sá þinn gangur sorga stirði
af sálu minni tók ómak.

9.
Minnist eg á þjáning þína.
Þig sú mæddi byrðin stríð.
Sannlega fyrir sálu mína
soddan leið þín gæskan blíð.
Vegna þess mér virstu að sýna
vorkunnsemi nær eg líð.

10.
Hold er tregt, minn herra mildi,
í hörmungunum að fylgja þér.
Þó eg feginn feta vildi
fótspor þín, sem skyldugt er,
viljinn minn er í veiku gildi,
þú verður því að hjálpa mér.

11.
Elskugeð so þitt eg þekki,
þjáðum viltu sýna lið.
Láttu mig, drottinn, einan ekki
í ánauð minni, og þess eg bið,
nafnið mitt, þó nauðir hnekki,
náð þín blessuð kannist við.

12.
Komir þú undir krossinn stranga,
kristin sála, gæt þess hér,
ef holdið tekur að mögla og manga,
minnstu hvör þín skylda er.
Láttu sem þú sjáir ganga
sjálfan Jesúm undan þér.

13.
Undir krossi illvirkjanna
aldrei hér þig finna lát.
Varast glæpi vondra manna,
á verkum þínum hafðu gát.
Iðkaðu bæn og iðrun sanna,
elska gjarnan hóf og mát.

14.
Hafðu, Jesú, mig í minni,
mæðu og dauðans hrelling stytt.
Börn mín hjá þér forsjón finni,
frá þeim öllum vanda hritt.
Láttu standa á lífsbók þinni
líka þeirra nafn sem mitt.


Athugagreinar

Amen

(Sjá Passíusálmar 1996, bls. 134–139)