Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Andlátssálmur sem skáldið orkti síðast á sóttarsænginni (1674)

Fyrsta ljóðlína:Guð komi sjálfur nú með náð
Bragarháttur:Hymnalag
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1675
Tímasetning:1674
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Andlátssálmur þessi var fyrst prentaður í Hallgrímskveri á Hólum 1755 og síðan í seinni Hallgrímskverum. Í Ljóðmælum I er farið eftir Hallgrímskveri á Hólum 1773, síðustu útgáfu sem Hálfdan Einarsson sá um. Ljóst er að sá texti er traustastur. Hér er þeim texta einnig algerlega fylgt. Sálurinn er einnig varðveittur í eftirtöldum þekktum handritum: Lbs 496 8vo, bl. 122v–125v; Lbs 608, bls. 1–9; Lbs 1119 8vo, bls. 350–356; Lbs 1246 8vo, bls. 269–280; Lbs 1335 8vo, bl. 24r–28r; Lbs 1724 8vo, bls. 196–202; Lbs 2158 8vo, bls. 50–56; JS 52 8vo, bls. 10–20; JS 237b 8vo, bl. 179r–181r; JS 439 8vo, bl. 37r–42r; ÍB 138 8vo, bls. 136r–138v; ÍB 242 8vo, bl. 56v–62v; ÍB 495 8vo, bls 136–144 og ÍBR 9 8vo, bls. 65–70.
1.
Guð komi sjálfur nú með náð
nú sjái Guð mitt efni og ráð;
nú er mér, Jesú, þörf á þér,
þér hef eg treyst í heimi hér.
2.
Eg hefi aldrei í nokkri nauð
nauðstaddur beðið utan Guð.
Guð hefur sjálfur gegnt mér þá,
Guð veri mér nú líka hjá.
3.
Ákvörðuð mín og mæld er stund,
mitt líf stendur í þinni hönd.
Andlátið kemur eitt sinn að,
einn veistu Guð nær skeður það.
4.
Nú hef eg þar á nokkurn grun
nálægjast þessi stundin mun.
Holdið mitt er af harmi þreytt
hafa kraftarnir sér umbreytt.
5.
Finn eg að augum förlast sýn,
falla tekur nú heyrnin mín,
hendurnar hafa misst sitt magn,
minn fótur vinnur ekkert gagn.
6.
Líkaminn allur særður sótt
svitnar og dregur af mér þrótt,
einnig þrengist um andardrátt,
eg vænti minnar hvíldar brátt.
7.
Dofna varir og tungan treg,
tala því ekki orka eg,
hjartað svo margskyns mæða lýr,
mannleg hiálp öll sér frá mér snýr.
8.
Sárbeiði eg Guð af góðri lund:
Gef þú mér hæga dauðastund,
ofbjóða lát ei andláts deyð,
aumka þig yfir mína neyð.
9.
Vitnisburð þann frá eilífð átt
að þú hjálpir á bestan hátt.
Þá endast megn og mannleg stoð
miskunna þú mér, Drottinn Guð.
10.
Láttu nú sannast liðið þitt,
líttu á kvein og andvarp mitt.
Eg sárgrátbæni, son Guðs, þig,
syndirnar skildu nú við mig.
11.
Útslegið bið eg allt það sé
er eg þig Drottinn móðgaðe.
Óverðugum til góða ger
Guð, sem oftar og hjálpa mér.
12.
Fyrst þú hefur svo hingað til
haft stóra náð og kærleiks yl
í frammi við mig fallinn mann
frelsaðu mig nú nauðstaddan.
13.
Þú hefur fyrri fyrir mig strítt,
fengið mér sigurmerkið nýtt,
Jesú minn, nú þín frægðin fríð
fyrir mig vinni dauðans stríð.
14.
Gef þú mér eina trausta trú
til þín, minn hjartans herra, nú.
Í gegnum dauðans grimma hlið
Guð láti komast mig með frið.
15.
Sæktu, minn Guð, hvað sjálfs þíns er
sálina þá sem gafstu mér,
skildu hana nú hægt við hold,
hvílast lát það í jarðar mold.
16.
Hún verður fegin hvíldarfund,
haft hefur marga mæðustund,
vosbúðarnótt og nauðaflug,
næsta barist með veikan dug.
17.
En það hún hefur afborið
er skeð fyrir hins hæsta lið.
Hann hefur sinn hinn sanna kraft
svo í þeim breyska ríkan haft.
18.
Oft hefur lúinn anda nært,
erfiði hjartans stilling fært,
úrræði er eg engin sá
í sínu skauti bar mig þá.
19.
Legg þú mig nú á náðarbrjóst,
nafnfrægi Guð, sem heitir ljóst,
hjúkun aðstoð og hjálpar lið,
hjartanu gef nú sannan frið.
20.
Af þrengslum minnar móður lífs
mig leiddir þú án dauðans kífs,
leys nú af þrengslum líkamans
lifandi sál til himna ranns.
21.
Strax sem mín augna uppkom rós
eg fekk að líta heimsins ljós.
Fyrr en eg allur fæddur var
fékkstu mér þá hið nægsta svar.
22.
Svo láttu mína sálu nú
sjá þig i einni réttri trú.
Vertu sjálfur ljósmóðir mín,
mín sál fæðist í hendur þín.
23.
Í skírninni mér skenktir þig,
skal eg þér Jesú aftur mig
grandvarlega með góðri lund
gefa á minni dauðastund.
24.
Óbeðinn tókst mig að þér fyrst
en nú sárbið eg Jesú Krist
með trúarhendi þér haldi eg fast,
herra lát mig ei vanmegnast.
25.
Strax sem mér leystist tunga og tönn
til mín barst lífsins fæða sönn,
af öldum kálfi sál mín saug
sonar Guðs blóð þá dýrstu laug.
26.
Heilagur andi hæstur þinn,
hann er sá tryggða hringurinn
sem sonur Guðs mér gaf á hönd
giftast þá vildi minni önd.
27.
Skínandi föt mér skenktir þá
að skyldir mig í þeim aftur sjá
bæði á dægri dauða míns,
drottinn, og ríki föður þíns.
28.
Eg kem hér fram með ekkert mitt,
elskhugi minn, í brúðkaup þitt,
sjá þú mig nú í sjálfum þér
saurugt er allt hvað með mér er.
29.
Eg hef svo marga mæðustund
mænt eftir þínum dýrðarfund,
finndu mig nú þó liggi eg lágt,
lát mig ei altíð eiga bágt.
30.
Sé eg þig gegnum svart eitt ský
sitjandi himnaríki í.
Eg á nú til þín ekki langt
en mér finnst bæði hart og strangt.
31.
Eg styð mig nú við orðið þitt,
erfiði léttu, drottinn, mitt.
Sálin mín er af þunga þjáð,
þyrst og sárhungruð eftir náð.
32.
Deyf þú nú alla dauðans raun,
drottinn, gjald mér ei verðug laun.
Eftir náð þinni minnstu mín,
minningin lifir í mér þín.
33.
Á náð legg eg mig lausnarans,
lífið mitt er í valdi hans.
Gæskan þín hefur grát minn stillt,
Guð, far þú með mig sem þú vilt.
34.
Honum einum eg hef mig geymt,
hans náð hefur mér ekki gleymt;
raungóður sem mér sést nú hjá
sálu minni mest liggur á.
35.
Lífsins pantinn mér lagðir þann,
lifandi anda heilagan,
signetið það með sannri lyst
setur á hjartað Jesúm Krist.
36.
En hvar Jesús í brjósti býr
býr þar hans náð og elskan dýr,
syndakvittun og miskunn manns,
mitt líf það er í valdi hans.
37.
Eg treysti Guði uppá öll
orð hans og held þau minn grundvöll.
Jörð og himnar forganga greitt,
Guðs orð það skeikar aldrei neitt.
38.
Eg vil í drottni sofna sætt,
samviskustríðið allt er bætt.
Dauðahaldi eg Drottin þríf,
dýrstur gef þú mér eilíft líf.
39.
Kveð eg í Guði góðan lýð,
gleðilegar þeim nætur býð,
þakkandi öllum þeirra styrk,
þjónustu, hjálp og kærleiksverk.
40.
Ástkæra, þá eg eftir skil,
afhenda sjálfum Guði vil.
Andvarpið sér hann sárt og heitt,
segja þarf honum ekki neitt.
41.
Unni hann yður kærleiks koss,
kvitt á hann einn að skilja oss.
Gef þú það, Jesú Kriste kær,
kátir hjá þér að finnumst vær.
42.
Hlýðni alla og þelið þítt,
það veiti Guð mér harla blítt.
Gefi mig kvittan Guð og menn,
grátbæni eg þess af hjarta enn.
43.
Lúinn anda eg legg nú af,
lífinu ráði sá sem gaf,
í sárum Jesú mig sætt innvef,
sálu mína eg Guði gef.
44.
Láttu mig, drottinn, lofa þig,
með lofi þínu hvíla mig,
ljósið í þínu ljósi sjá,
lofa þig strax sem vakna má.
45.
Láttu mig færa fram þau hljóð
fyrst og seinast, minn drottinn Guð,
að lofa þig í heiðri hár,
haldist þín dýrð um eilíf ár.