Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Passíusálmar 14

Um þjónanna spott við Kristum

PASSÍUSÁLMAR
Fyrsta ljóðlína:Eftir þann dóm sem allra fyrst
Bragarháttur:Hymnalag
(o)
(o)
(o)
(o)
Viðm.ártal:≈ 1650
Tímasetning:1659
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Tón: Allfagurt ljós
1.
Eftir þann dóm sem allra fyrst
andlegir dæmdu um herrann Krist
hafa þeir, því að þá var nótt,
þegar til hvíldar gengið skjótt.

2.
Drottinn vor eftir þreyttur þar
þrælum til gæslu fenginn var.
Gjörði að honum gys og dár
guðlausra manna flokkur þrár.

3.
Háðung, spottyrði, hróp og brigsl
hvör lét með öðrum ganga á víxl,
hræktu og slógu herrann þar,
hann þó á meðan bundinn var.

4.
Sjáðu og skoða, sála mín,
saklausa lambsins beisku pín.
Hugsa vandlega um það allt
af þessu hvað þú læra skalt.

5.
Hann sem að næturhvíld og ró
hvörri skepnu af miskunn bjó
í sinni ógna eymda stærð
öngvan kost fékk á neinni værð.

6.
Hvíldarnótt marga hef eg þáð,
herra Jesú, af þinni náð.
Kvöl þín eymdum mig keypti frá,
kannast eg nú við gæsku þá.

7.
Nær sem eg reyni sorg eða sótt,
seinast að kemur dauðans nótt,
næturkvala sem neyddu þig
njóta láttu þá, Jesú, mig.

8.
Samviskuslög og satans háð
sefi, Jesú, þín blessuð náð.
Ofboð dauðans og andlátspín
aftaki og mýki gæskan þín.

9.
Margur, og víst það maklegt er,
mjög þessum skálkum formæler.
Þó finnast nokkrir hér í heim
að hegðun allri líkir þeim.

10.
Hvað gjöra þeir sem hér á jörð
hafa að spotti drottins orð,
lifa í glæpum ljóst til sanns,
lasta og forsmá þjóna hans?

11.
Sá sem Guðs náð og sannleikann
sér, þekkir, veit og skynja kann,
kukl og fjölkynngi kynnir sér
Kaífas þrælum verri er.

12.
Soninn Guðs ekki þekktu þeir.
Því syndga hinir langtum meir
sem kallast vilja kristnir best,
Kristum þó lasta allra mest.

13.
Hræsnarar þeir, sem hrekki og synd
hylja þó undir frómleiksmynd,
líkjast þessum er lausnarann
lömdu blindandi og spjöðu hann.

14.
Hvörjum sem spott og hæðni er kær
hann gengur þessum selskap nær.
Forsmán guðrækins, fátæks manns
fyrirlitning er skaparans.

15.
Ó, vesæll maður, að því gá,
eftir mun koma tíminn sá,
sama hvað niður sáðir hér,
sjálfur án efa upp þú sker.

16.
Ef hér á jörð er hæðni og háð,
hróp og guðlastan niður sáð,
uppskorið verður eilíft spé,
agg og forsmán í helvíte.

17.
Ætla þú ekki, aumur mann,
afkomast muni strafflaust hann
sem soninn hefur hér hætt og spjað,
horfi faðirinn upp á það.

18.
Hvað Jesús nú um næturskeið
nauðstaddur hér af mönnum leið,
óguðlegur um eilífð þá
af illum djöflum líða má.

19.
Ókenndum þér, þó aumur sé,
aldrei til leggðu háð né spé.
Þú veist ei hvörn þú hittir þar
heldur en þessir Gyðingar.

20.
Sjálfan slær mig nú hjartað hart,
hef eg án efa mikinn part
af soddan illskum ástundað,
auðmjúklega eg meðgeng það.

21.
Sáð hef eg niður syndarót,
svívirðing mín er mörg og ljót.
Uppskerutímann óttast eg,
angrast því sálin næsta mjeg.

22.
Herra minn, Jesú, hörmung þín
huggun er bæði og lækning mín.
Sakleysi víst þú sáðir hér,
sælunnar ávöxt gafstu mér.

23.
Blóðdropar þínir, blessað sáð,
ber þann ávöxt sem heitir náð.
Þann sama Guð mér sjálfur gaf.
Sáluhjálp mín þar sprettur af.

24.
Hæddur varstu til heiðurs mér,
högg þín og slög mín lækning er.
Aldrei má djöfull eiga vald
á mig að leggja hefndargjald.

25.
En þér til heiðurs aftur á mót
iðrast vil eg og gjöra bót,
holdsvilja gjarnan hefta minn,
hjálpi mér, Jesú, kraftur þinn.


Athugagreinar

Amen