Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Moldin angar

Fyrsta ljóðlína:Nú faðmar nóttin gleymd og gömul leiði
Bragarháttur:Átta línur (tvíliður) fimmkvætt AbAbCdCd
o
o
o
o
o
o
o
o
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1919

Skýringar

Birtist upphaflega í ljóðabókinni Svörtum fjöðrum 1919.
Nú faðmar nóttin gleymd og gömul leiði,
og grænu stráin skjálfa mér við hlið.
Úr veikum strengjum vögguljóð ég seiði,
sem veita hjarta mínu ró og frið.
En moldin angar dular draumanætur,
og dauðinn leikur undir söngsins klið,
og daggartárum lága grasið grætur,
en gröfin stendur opin mér við fætur.

Í draumaleiðslu ljóð af strengjum flýgur,
er loftsins stjörnur brosa jarðar til.
En upp úr moldu móða dauðans stígur,
svo myrkvast loft og sést ei handaskil.
Að vitum mínum ilmsins öldur streyma,
og andinn laugar sig í djúpsins hyl.
Hvort munu þeir ei guði og mönnum gleyma,
sem gista dauðans þöglu friðarheima?

Ég hefi reynt að ráða gamlar gátur
en guðdóm lífsins þekki ei né skil.
Og söngur minn er bæði gleði og grátur,
og guð ég bið, þó hann sé enginn til.
Eins og þau börn, sem eiga mold að móður
og myrkrið flýja, en leita að birtu og yl,
þá er mér hvíld að hrópa: Guð minn góður,
gef mér frið, því ég er vegamóður.

Ég skelfist ei, þótt sígi sól í æginn
og svartri blæju vefjist moldin gljúp,
og þótt ég margoft syrgi sólskinsdaginn,
er sólin fegurst bak við hafsins djúp.
Ég þrái oft, svo mig ei nakinn næði,
að nóttin sveipti mig í dauðans hjúp;
því svo er ekkert sár, þótt núna blæði,
að svefninn ekki lækni það og græði.

En þegar svanur svífur yfir dalinn,
fer sál mín líka hvíta vængi að þrá;
en eg sem hér á ólandi var alinn,
get aldrei klofið loftin fagurblá.
Þau forlög ein mér finnst eg hafa hlotið
að fölna í moldu, visna eins og strá,
sem jafnvel veikur blærinn getur brotið
og birtu sólar skamma stund fær notið.

Svo líðið, dagar, líðið, ár og aldir,
og ilmi blandið dauðans heillaskál.
En víða leynast leyndardómar faldir,
og lífið talar stöðugt leyndarmál.
Menn skipta á friði og synd á sölutorgum,
og sumir kveikja, en aðrir slökkva bál;
en loftin sortna af reyk fra brunnum borgum,
og barmur jarðar stynur þungt af sorgum.

En mér finnst alltaf moldin fara að anga,
er myrkvast loft og sést ei handaskil.
Og þegar menn frá grafreit mínum ganga,
þá gleymist það, að eg hef verið til.
Þá verður eilíf þögn um minning mína,
um mínar ástir, ljóð og strengjaspil.
Og dagar, ár og aldir koma og dvína
en aldrei hættir dauðans starna að skína.