Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Íslendingaljóð 17. júní 1944

Fyrsta ljóðlína:Land míns föður, landið mitt
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1944
1.
Land míns föður, landið mitt,
laugað bláum straumi:
eilíft vakir auglit þitt
ofar tímans glaumi.
Þetta auglit elskum vér,
— ævi vor á jörðu hér
brot af þínu bergi er,
blik af þínum draumi.
2.
Hvíslað var um hulduland
hinst í vestanblænum:
hvítan jökul, svartan sand,
söng í hlíðum grænum.
Ýttu þá á unnarslóð
Austmenn, vermdir frelsisglóð,
fundu ey og urðu þjóð
úti í gullnum sænum.
3.
Síðan hafa hetjur átt
heima í þessu landi,
ýmist borið arfinn hátt
eða varist grandi.
Hér að þreyja hjartað kaus,
hvort sem jörðin brann eða fraus,
— flaug þá stundum fjaðralaus
feðra vorra andi.
4.
Þegar svalt við Sökkvabekk
sveitin dauðahljóða,
kvað í myrkri um kross og hlekk
kraftaskáldið móða.
Bak við sára bænarskrá
bylti sér hin forna þrá,
þar til eldinn sóttu um sjá
synir vorsins góða.
5.
Nú skal söngur hjartahlýr
hljóma af þúsund munnum,
þegar frelsisþeyrinn dýr
þýtur í fjalli og runnum.
Nú skal fögur friðartíð
fánann hefja ár og síð,
varpa nýjum ljóma á lýð
landsins, sem vér unnum.
6.
Hvort sem krýnist þessi þjóð
þyrnum eða rósum,
hennar sögur, hennar ljóð,
hennar líf vér kjósum.
Ein á hörpu íss og báls
aldaslag síns guðamáls
æ hún leiki ung og frjáls
undir norðurljósum.