Til Stephans G. Stephanssonar | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Til Stephans G. Stephanssonar

Fyrsta ljóðlína:Óravegu láðs og lagar
bls.192
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður) fer- og þríkvætt AABcBc
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1917
1.
Óravegu láðs og lagar
lýstu bjartir júnídagar
honum sem í hróðri glöggvast
hefir skýrt frá þeim.
Þeim sem aftur allra snöggvast
er nú kominn heim.
2.
Minni forn að telja og tína
til að finna móður sína
þá, er eirir enn á floti
ysta reginhaf,
og sem honum krakka í koti
kossinn fyrsta gaf.
3.
Eitt gat lyginn sagt með sanni:
„Sá varð busi að drjúgum manni.“
Slíkt hið sama: „Fyrstu fetin
framar honum rann,
Nú er ég aftur einskis metinn,
öllum fremri hann.“
4.
Ef svo nefndi hann guð og gæfu,
get ég þetta minni hæfu.
Er þó rétt, að erfðum fékk hann
eðli gott og rót.
Og er kaldan Kjalveg gekk hann
kraft og þroskabót.
5.
Kjalveg þann er kjarki lyftir,
Kjalveg þann er heimum skiptir.
Veg sem eflt fær eðlisknáa,
aðra að fullu kyrkt.
Leið sem getur þokan þráa
þrítug-nætta byrgt.
6.
Fór að heiman fangasnauður,
fólst í hverju taki auður.
Þor og vilji, þau hafa dregið
þrautahlassið mest.
Hjartans gull í gangmynt slegið
greiddi för hans best.
7.
Þéttur í skapi, þungur í vöfum,
þrár í sóknum, harður í kröfum.
Strangur og vandur við sitt eigið
vísna- og háttalag.
Þrótt í líf og ljóð gat hlegið
lúans höfuðdag!
8.
Verið hefir á ferð og flugi
fjalls og sléttu ofurhugi,
sá víst oft á svaðilferðum
sólhvörf tvenn g þrenn.
Lyftir stoltur höfði og herðum
hátt yfir stærðarmenn.
9.
Hans er vegur úr vanda brotinn,
valdsmannstign í listum hlotin.
Um hann Stephan allir tala
og hans ljóðin snjöll:
Vébönd þandi hann vorra dala
vestur í Klettafjöll.
10.
Aldrei verður hann andalúinn,
æ til nýrra starfa búinn.
Veit ég hefir verið löngum
við hann lullað þó.
Aldrei vannst hann seiðingssöngum
svefnsins: „Korr í ró.“
11.
Notað hefir nótt og daga
norrænn – vestrænn sonur Braga.
Tveggja heima samfellt sungið
söng á hæstu burst,
oddum hvassra örva stungið
inn í læsta hlust.
12.
Svo menn urðu að vakna og vaka,
vökuskarfi móti að taka.
Margra hefir Stephans staka
stolið næturfrið.
Fleiri í draumi fram og til baka
flutt um Edens hlið.
13.
Ýmsa hefir hann sært til saka!
Sár og benjar þeirra flaka
er hæst um trú og kærleik kvaka
en kúga á laun og snið.
Þurrir höfuðhluti taka
hinna er berja á svið.
14.
Öllum vill á kaldan klaka
koma er rétti og sannleik þjaka.
Öllu vill hann illu stjaka,
ýta og róta við.
Sjálf fær dyggðin dauðaspaka
dræmings frið og grið.
– – –
15.
Rétt til þín við þykjumst hafa,
þó er meiri hinna krafa
sem þér mót of sævar klökkum
seilast höndum tveim.
Far því vel og vafinn þökkum
vestur á bóginn heim.
16.
Vegaþrautir láðs og lagar
létti mildir haustsins dagar
snilling mannvits, máls og óðar,
með sinn djúpa hreim.
Boðsgesti allrar Íslandsþjóðar
austanmegin, heim.


Athugagreinar