Grettisbæli | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Grettisbæli

Fyrsta ljóðlína:Ég stari út yfir storð og mar
bls.99–100
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Ég stari út yfir storð og mar;
á steini eg sit, þar sem byrgið var,
og hallast að hrundum þústum.
Ég lít í kring yfir kot og sel,
yfir kroppaðar þúfur, blásinn mel,
og feðra frægðina í rústum.
2.
Og hálfgleymdar sagnir í huga mér
hvarfla um það, sem liðið er,
og manninn sem hlóð þetta hreysi.
Mér er sem ég sjái hið breiða bak
bogna og reisa heljartak
í útlegð og auðnuleysi.
3.
En einkum er mér sem ég heyri hljóm
af hreinum og djúpum karlmannsróm
í dýrri og duldri bögu.
Þau orð og þau svör, – þeim ann ég mest,
öflug og köld – þau virði ég best
í Grettis göfugu sögu.
4.
Hann ætíð var gæfunnar olnbogabarn,
úthýstur, flæmdur um skóg og hjarn,
en mótlæti mannvitið skapar.
Það kennir, að réttur er ranglæti, er vann, –
og reyndi það nokkur glöggvar en hann;
að sekur er sá einn, – sem tapar?
5.
Hans lund var blendin og bitur hans hjör,
og beisk voru líka öll hans kjör,
því er hann nú góður genginn.
En áður en skráð var hann æviskeið,
áður en fjörbaugsmanninn leið,
þá unni honum fár –­ eða enginn.