Ljóðabréf til Helgu Pálmadóttur Litla-Hóli í Skagafirði ... * | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Ljóðabréf til Helgu Pálmadóttur Litla-Hóli í Skagafirði ... *

Fyrsta ljóðlína:Svofnis brúa sólin hér
bls.65-66
Viðm.ártal:≈ 1850–1875

Skýringar

Fyrirsögnin í heild:
Ljóðabréf til Helgu Pálmadóttur Litla-Hóli í Skagafirði frá Helgu Gunnlaugsdóttur konu Sveins Sveinssonar Haganesi í Vestur-Fljótum ort af Hafliða Finnbogasyni
1.
Svofnis brúa sólin hér,
sæl og blessuð vertu,
allt til snúist yndi þér,
ósk mín sú af munni fer.
2.
Þakkir hlýjar þels um bing
þér um ævidaga,
sprundið frýja ég fyrir syng
forna og nýja viðkynning.
3.
Allt hið góða, er gerðir mér
gullskorð, fyrr og síðar,
geðs af slóð ég þakka þér
og þar með ljóð, er sendir mér.
4.
Síðan einatt geðs um gil
girn sú hjá mér vakti,
Góins hleyna blíðri bil
Bragar grein að senda til.
5.
Frétta verður fátt hjá mér,
foldin mundar ljóma,
aðrir sverða Ullar hér
um sem ferðast tjá hvað skér.
6.
Tíðarfarið teljast má
töstugt hér í Fljótum,
hríðar gari hauðri á
hvorki sparar frost né snjá.
7.
Naustast lengi mastra már,
marar fram við heiði,
hefur mengi hér í ár
hákarls fengur gefist smár.
8.
Tálmun valda veiðunum
verstu óstillingar,
gefur skjaldan skeiðunum
að skríða á Mjaldurs heiðunum.
9.
Ljónin fokku — ljóst með sann —
létu snemma á Þorra
holdar brokka um humra rann,
hleraði nokkuð tíma þann.
10.
Lengi stóð ei stilling kjörð,
storma þussinn leiði
barði óður áls um jörð
essin flóða á Siglufjörð.
11.
Varði lengi vindur sá,
virðar teftir láu,
allir gengu gnoðum frá,
gat ei fengizt leiði þá.
12.
Nokkru síðar Freyrar fleins
flúðar sóttu jóra,
verða lýðum vann til meins
veðrið stríða og þá allt eins.
13.
Hófst þá rimma harla 'stríð,
húmi nætur meður
að nam dimma austan hríð,
ógnar grimm, sem hrelldi lýð.
14.
Meðan Grérar Lagar ljóss,
léttu heima knörinn.
Vendir hér að vargur sjós
Vík frá snéri Yzta-Mós.
15.
Hringa lundar festu far
fram af lendingunni,
meðan hundur Hlésborgar
hinn á grundu settur var.
16.
Lands til fóru firðar þeir,
flutning smáan meður,
á öldu jór um ufsa leir
eftir vóru bændur tveir.
17.
Hart svo gekk að hríðin bráð,
að höldar gjörla sáu,
að fært var ekki um fiska láð
fram, svo rekkum yrði náð.
18.
Hríðar æðis ógnin þá
öllu fram úr hófi
barði svæði og húsin há,
hörs sem þræði léki á.
19.
Sorgir fylltu seggi þar,
er sjóinn viður dvöldu,
ei frá grilltu augum par
ógnum trylltu stórhríðar.
20.
Svoddan mesta gjörði grand
grimmum fyrir stormi,
hafði festar bilað band
og báru-hestinn keyrt á land.
21 . Skipið gallað víða var,
voðir og reiði slitinn,
farmurinn allur fórst í mar og
fingra mjalla viðir þar.
22.
Lýði mæðir leitum ver,
lítið fundið geta,
kornmat bæði og hákarl hér
hylur Græðir enn í sér.
23.
Einnig látin liggja þar
líkin þeirra tveggja.
Sárt úr máta , sorgbitnar,
seggi gráta ekkjurnar.
24.
Einn þó mæti harma hríð,
huggast þar við skyldi.
Enginn grætur alla tíð,
undan lætur böl um síð.
25.
Þungbært stríð við eymdir á
Ásgrímur á Skeiði,
fegri tíðir muna má
Móins-hlíða geymir sá.
26.
Þjakast lund við þrautirnar,
þrát t þó leitað væri
laufa þundi lækningar,
lætur undan þegi par.
27.
Þó um tíma þanka far
þrenging hljóti lýða,
gegnum Ímu angistar
eygist skíma gleðinnar.
28.
Nú er blaðið enda á,
útskrifað í ljóðum.
Láttu það ei lýði sjá,
linna traða birtu gná.

Utanáskrift:
29.
Bendir álma biðja vil
bréf að Litla-Hóli,
hljóti ei tálman — heldur skil
Helgu Pálma dóttur til.

Ljóðabréf þetta er skráð eftir minni Ólafs Gottskálkssonar bílstjóra á Siglufirði. Hann lærði það í æsku af móður sinni, sem einnig lærði það ung að aldri. Hún var vinnukona hjá Helgu Gunnlaugsdóttur í Haganesi, þegar bréfið var ort. Það hefur því lifað í minnum manna frá því. Mér finnst því rétt, að það komi fyrir almennings sjónir, og forða því þannig frá gleymsku.
Guðlaugur Sigurðsson.