Að búast rétt | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Að búast rétt

Fyrsta ljóðlína:Að búast rétt af heimi hér
bls.279
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Að búast rétt af heimi hér
sá hirðir lítt, sem ungur er,
og gamlir eins því gleyma.
Það lærist seint við lán og kross,
ef lausnarinn ei býr með oss,
sem eigi hjá oss heima.
2.
Svo oft ég hjá þér huggun finn,
er hryggð og angur döggva kinn
og harmur stríðið herðir;
en þó er önd mín sjaldan sæl,
því syndin bítur æ minn hæl,
þótt hennar höfuð merðir.
3.
Þú þekkir, ljúfi bróðir, best
hinn bleika, kalda heljargest,
þú hefir brodd hans brotið;
en allt eins ljóst er ávallt þér,
að óttaslegnir stöndum vér,
þá tímans tal er þrotið.
4.
Því dvel ei fjarri, Kristur kær,
og kom þú ávallt nær og nær
þinn grátinn vin að gleðja;
kom árla, kom að aftni dags,
og eg skal vera búinn strax
hinn kalda heim að kveðja.
5.
En komi fyrri kvíðvæn Hel,
æ, kom þá hljótt, og mundu vel
hve djúp og dimm er gröfin,
og signdu blítt þinn sjúka vin,
og sýn mér, þegar harðast styn,
Guðs ljós fyrir handan höfin.
6.
Kom, þegar eldar aftur nótt,
sem einhver minna komi hljótt
og brosi hljóður hjá mér;
og heit mér þá með hýrri lund
að heilsa mér á sælli stund
og fara aldrei frá mér.
7.
Kom sem þú vilt; sú von er traust
ég við þig kannist efalaust,
ég þekki raustu þína,
þá raust, sem eins við öll mín kjör
mér ávallt veitti kraft og fjör
og yngdi öndu mína.
8.
Ég veit þá kallið kemur mér,
þá koma líka orð frá þér,
er tunga má ei tala;
sem birta æðri andans sól,
og að þú hafir geymt mér stól
í ljósi lífsins sala.
9.
Og þegar dauðans harða hönd
úr holds míns ánauð leysir önd
og lýkur lífsyl vörmum:
við brjóst þitt lát mig leggja hvarm
sem lítið barn við móðurarm
í ljúfum líknarörmum.