Íslensk tunga | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Íslensk tunga

Fyrsta ljóðlína:Sé ég hendur manna mynda
bls.72–75
Bragarháttur:Sex línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aaBccB
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1898

Skýringar

Prentað í Þjóðviljanum unga 16. mars 1900.
1.
Sé ég hendur manna mynda
megin-þráð yfir höfin bráðu,
þann er lönd og lýði bindur
lifanda orði suðr og norður.
Meira tákn og miklu stærra
megin-band hefr guðinn dregið,
sveiflað og fest með sólar-afli
sálu fyllt og guða-máli. —
2.
Máli, sem hefur mátt að þola
meinin flest er skyn má greina:
ís og hungur, eld og kulda,
áþján, nauðir, svartadauða;
málið fræga söngs og sögu
sýnu betra guðavíni, —
mál er fyllir svimandi sælu
sál og æð þótt hjartanu blæði.
3.
Það hefur voða-þungar tíðir
þjóðinni verið guðleg móðir
hennar brjóst við hungri og þorsta,
hjartaskjól þegar burt var sólin,
hennar ljós í lágu hreysi,
langra kvelda jóla-eldur,
fráttaþráðr af fjarrum þjóðum,
frægðargaldur liðinna alda.
4.
Stóð það fast þegar storðin hristist,
stóð það fast fyrir járni og basti,
stóð það fast, og fjör og hreysti
fékk hvað mest við stríð og hnekki.
Lof þitt, Frón! sé ljóðum skrifað,
lof fyrir hrundinn sálardoða,
vikingslund og brýnda branda
bráðeggjaðra hreysti-dáða!
5.
„Undrast fögur öglis landa
eik hví vér ’rom fölir ok bleikir?„
– spurði skáld, og grafljóð gerði
geymileg meðan byggjast heimar.
Héðinn söng meðan hyrjar-tungur
heljar-váða stefin kváðu,
Þórir, Jökull, og þaðan af fieiri
þuldu ljóð meðan öxin buldi.
6.
Sturla kvað yfir styrjar-hjarli,
Snorri sjálfur á feigðar-þorra;
ljóð frá auði lyfti Lofti,
Lilja spratt í villi-kyljum.
Arason mót exi sneri
andans sterka vígabrandi;
Hallgrímur kvað i heljar nauðum
heilaga glóð í freðnar þjóðir. —
7.
Hvað er nú tungan? – Ætli enginn
orðin tóm séu lífsins forði. –
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.
8.
Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elstu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum – geymir í sjóði.
9.
Tungan mögnuð sögu og signing
söngvaljóða kallast óður.
Því eru ungir óðmæringar
aðalsblóm og þjóðarsómi. —
Heyrið, skáld, á Fimbulfoldu:
Frelsið deyr ef vantar helsi!
væri eigi í lofi lygi
landsins gæða — mættu þér hræðast!
10.
Þakkið mein og megin raunir,
Mammons-ríkis Ameríku!
Þakkið slyppir kaupin kröppu,
keppni er bestri en stundar heppni.
Hvað er frelsi? – Hjóm og þvaður,
hjörinn þinn nema sigurinn vinni!
Þrælajörð þér veröldin verður,
verk þin sjálfs nema geri þig frjálsan.
11.
Fá mér tind af Garðars-grundu —
guðastól á sjónarhóli!
Sjá, ég eygi alla vegu
ógnar-land, fæ glóð í anda!
Vei þér fjöldi viltrar aldar:
veldis-orð hér liggr í storðu!
Sæk þú hart, en varkár vertu:
voðafull eru lönd úr gulli!
12.
Heyrið, skáld, á Fimbulfoldu:
fram í stafn í Drottins nafni!
Yðr eg fel – það sjái sólin! –
sverð er dýrast fengið verður!
Það er harpan, hert og orpin
Hekluglóð og jökulflóði,
vígð i Dvalins voða-byggðum
vöggu-óð og föðurblóði!
13.
Særi eg yður við sól og báru,
særi yður við líf og æru:
yðrar tungu, (orð þó yngist)
aldrei gleyma i Vesturheimi!
Munið að skrifa meginstöfum
manna-vit og stórhug sannan!
Andans sigur er æfistundar
eilífa lífið. Farið heilir! —
1898