Vísur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísur

Fyrsta ljóðlína:Ég skal yrkja annan brag
Höfundur:Teitur Hartmann
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Ég skal yrkja annan brag
- ekki fyrir borgun. -
Vínið sem að var í dag
verður ekki á morgun.
2.
Flaskan verður fótakefli
flestum sem að hana tæma.
Vín er mannsins ofurefli
eftir sjálfum mér að dæma.
3.
Sjálfur á ég sök á því
er sorgum mínum veldur.
Ég hef steypt mér ofan í
auðnuleysis keldur.
4.
Ég er á því eins og sést
ekki má það dylja
en það sem háir mér þó mest
munu fáir skilja.
5.
Hold er veikt þótt hreyki sér
hæst er nautnir freista.
Reiðubúnum anda er
oftast valt að treysta.
6.
Fyrr en að ég fell í gröf
fýsir mig að inna
af höndum aðeins eina gjöf
úrval vísna minna.