Jón Árnason bókavörður | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Jón Árnason bókavörður

Fyrsta ljóðlína:Hvert barn, sem þú á þessu landi kættir
bls.181
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1888

Skýringar

(Dáinn 1888)
1.
Hvert barn, sem þú á þessu landi kættir
er þúsund nætur skemmtir þeim og eina
við sagnabrunnsins brjóstanæring hreina
nú blessar þig og allar góðar vættir.
2.
Þitt sesam - sesam opnaði´ allar gættir
svo öruggt fórstu gegnum björg og steina;
í undirheim, í haug til fornmanns beina
með óskastein í hendi þú þér hættir.
3.
Þú hræddist ekki hraun né voðaklungur
þú hlóst að draug og gömlum skrípitröllum
og lengra´ og lengra gekkstu ör og ungur.
4.
Og sjá, þú stóðst á björtum blómsturvöllum
þar brostu hallir, sungu ljúflingstungur
en landsins drottning langt bar þó af öllum.
5.
Hún brosti hýrt, í hönd þér tók og sagði:
„kom heill og glaður, þig skal ekki saka -
þín lukka var, að leistu ei til baka“.
Og „gleym mér ei“ í lófa þinn hún lagði.
6.
„Sem menja-gáfu“, kvað hún blíð í bragði
„við blómstri þessu skaltu, vinur, taka
þá hylur þér ei heim minn sorg né vaka“. -
Og sýnin hvarf, en minni þitt ei þagði.
7.
Þann menjagripinn barstu trúr í barmi
og brjóst þitt fylltist sögulandsins auði
svo blindan sjálf varð björt á þínum hvarmi.
8.
Vort land var fullt af andans björg og brauði
en blómið þitt var skáldsins hjartavarmi
sem gleður meir en Rínarloginn rauði. -
9.
Ef liljan þín er lögð við kalið hjarta
þá lifnar það og kastar fargi þungu
þá færist líf í limi þeirra ungu
þá líður burtu hugarmyrkrið svarta. -
10.
Þá birtist oss, hvað sælli verur sungu. -
Haf þökk fyrir fundna fróðleiksgullið bjarta
því fólkið deyr, ef hverfa ljóð af tungu.