Kvæðið um Gullinkollu | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Kvæðið um Gullinkollu

Fyrsta ljóðlína:Eg hitti þig við lækinn
bls.262
Viðm.ártal:≈ 0
Eg hitti þig við lækinn
í ljóma sumarnætur
litla Gullinkolla.
Þú leikur þér og buslar
berfætt kringum polla
brún af vori og sól.
Þitt skart er fífilfesti
við fagurrauðan kjól.

En sumarnóttin bjarta
syngur í ungu hjarta -
þú sinnir varla gesti.

Er sé eg bjarta lokka
í ljúfum næturblænum
leika þér um háls
þá fer um ferðalanginn
svo furðulegur tregi
að eg skil það eigi
og mér er varnað máls.

Og þar er líkt og angan
frá engjablómum geri
að mér ljúfan seið
og um mig leiki bjarmi
bjartra sumardaga
við bros þín sólskinsheið
því aldrei sá ég vorið
jafn yndislega fagurt
úr augum bláum skína -
(Það hefði verið gaman
að þekkja mömmu þína
- en það er önnur saga).

Það hefur verið góð dís
sem gaf þér blindri sýn
Gullinkollan mín
og vísaði þér til vegar - -

Mér niða í eyrum heitar
og heiðar sumarnætur
en hver var nóttin þín
þegar? - -

Það hefur verið blá nótt
og bjart um heima alla
og blómin þúsundlit
og komið fram á hánótt
með heitra vinda þyt
og hörpur yndislegar
þegar - -

Það hefur verið hljóð nótt
í hispursleysi sínu
en helguð lífi þínu
við blóðsins blíða nið.
Það hefur verið góð nótt
og gefið frið
og gjafir yndislegar
þegar - -

Það hefur verið græn nótt
með grasa og blómaangan
og glóðafok af himnum
í silungslæki og polla
- og sumarsorg í banni.
Það hefur verið væn nótt
vökukonu og manni -
það veit eg, Gullinkolla.

Já, það hefur verið blá nótt
og bjart um heima alla
er blóðsins söng var lokið
og ljúfum næturleik -
Og einhver hefur dúnmjúkum
engilhöndum strokið
um engin fagurbleik.
Og einhver hefur ráðið
sem engan spyr til vegar
þegar

kveikt var á lífs þíns kveik.