Sálmur 48 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sálmur 48

Fyrsta ljóðlína:Ég gleðst af því ég Guðs son á,
Viðm.ártal:≈ 1800
Ég gleðst af því ég Guðs son á,
hann gaf mér sig og allt um leið,
er bæta fátækt mína má
og minni létta sálarneyð.

Ég gleðst af því ég Guðs son á.
Hvað gjört fær mér nú heimurinn?
Minn ástvin Jesús er mér hjá
með allan mátt og kærleik sinn.

Ég gleðst af því ég Guðs son á,
nú grandað fær ei dauðinn mér,
því brodd hans hefur brotið sá,
sem bróðir minn og vinur er.

Ég gleðst af því ég Guðs son á,
hann gefa vill mér himin sinn
og þangað leiða þrautum frá
í þreyða friðinn anda minn.

Ég gleðst af því ég Guðs son á,
ég gleðst, ó, Jesús minn, í þér,
og vil þér aldrei víkja frá,
en vak þú, Drottinn, yfir mér.


Athugagreinar

Ægedius - Þorvaldur Böðvarsson
Sb. 1801 - Helgi Hálfdánarson
Sigurbjörn Einarsson 5. v. endurkveðið 1969