Við fjörðinn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Við fjörðinn

Fyrsta ljóðlína:Ég fæddist þar sem fjöllin
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Ég fæddist þar sem fjöllin
faðma Ránardætur
og sól á sjónum logar
um sumarbjartar nætur.
2.
Þá blikar gull í báru
er bátur frá sér hrindir
og flökta í hafsins fleti
fjallahringsins myndir.
3.
Þar byltist rótlaust brimið
við blágrýtisins tengur
svo bergjötunninn bifast
sem bljúgur fiðlustrengur.
4.
Ég flæktist þaðan forðum
en festi hvergi rætur.
Ég fæddist þar sem fjöllin
faðma Ránardætur.