Einar Jónsson myndhöggvari | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Einar Jónsson myndhöggvari

Fyrsta ljóðlína:Þagnarheimur þinn var stór og fagur –
bls.41-42
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Þagnarheimur þinn var stór og fagur –
þar var nótt – og náðarríkur dagur.
2.
Guðum hjá þú gullið andans skyggðir –
glampar það í myndum sem þú byggðir.
3.
Fjallið háa – fjólan – undur smáa –
fossins afl – og hamragljúfrið bláa –
4.
norðurljós – með logavængi þanda –
leynast öll í verkum þinna handa.
5.
Í helgidómi þinna hljóðu sala
heyrði ég þig guðamálið tala.
6.
Þú leiddir mig um listgyðjunnar heima –
leyfðir mér – í fylgd með þér – að dreyma.
7.
Gullin dögg á grasi þinna lunda
glitrar – er ég minnist þeirra stunda.
8.
Trúin þín var heit og himinborin –
hjartað viðkvæmt – líkt og blóm á vorin.
9.
Allt þú skildir – allt þú vildir bæta –
enginn mátti þjást – ei barnið græta.
10.
Hógvær – þínum hugsjónum æ sýndir
hollustu – þær ódauðleika krýndir.
11.
Landið sem þú unnir öðrum framar
auðmjúkt geymir meitil þinn og hamar.
12.
Ei fæ þakkað – Einar – þínar gjafir –
um það votta fátæklegir stafir.
13.
Mannvinurinn – mildur – sannur – hljóður –
mun þér búinn uppheimsstaður – góður.