Vísur til Jóns Pálmasonar á sjötugsafmæli hans | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísur til Jóns Pálmasonar á sjötugsafmæli hans

Fyrsta ljóðlína:Sterkar eikur stormi fagna
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Sterkar eikur stormi fagna
standa keikar veðrum í.
Þinn var leikur mál að magna
mæta reyk og vopnagný.
2.
Svarafljótur, römm var rótin
ráðaskjótur hugurinn.
Brögðin ljótu, breiðu spjótin
bitu ei hót á serkinn þinn.
3.
Þótt í hringi beygist boðorð
og bændur þvingi róður hver
Æverlinga gamla goðorð
geymdu í slyngri hendi þér.
4.
Hljómi stakan öllu yfir
undir taki hlíð og kinn.
Hjá Jóni á Akri enn hún lifir
enda vakur fákurinn.
5.
Fornir siðir fara að dofna
fellur skriða í tímans sjó.
Þú ert viður sterkra stofna
stæltur viður eldist þó.
6.
Árin tifa, öldin rennur
ellin rifar seglin hljóð.
Fennir yfir orðasennur
eftir lifir minning góð.