Muna-blik I – Tileinkað konu minni. | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Muna-blik I – Tileinkað konu minni.

Fyrsta ljóðlína:Ég geymi í anda myndir af ljúflingum ljósum
bls.1976 bls.40
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Ég geymi í anda myndir af ljúflingum ljósum,
er léku sér um völlinn, í hlýrri morgunsól.
í daggar-perlu-skrúða þeir dönsuðu á rósum,
með draumsóley og fjólu í nýjum sumarkjól.
2.
Fuglar leiddu dansinn, þeir sungu vikivaka.
Vorgyðjan var dásamleg hverja morgunstund.
Svásu gömlu myndirnar boða ég til baka,
bið þær komi ferskar í minninganna lund.
3.
Meðan lífið svarar og von í veiku hjarta,
vaxa blóm um grundir, og sólin gyllir fjöll,
ég kvíði eigi vetri, þá kemur nóttin svarta,
ég kalla æskuvorin í drauma minna höll.
4.
Í ævintýraheimi var alin æskusaga,
þá aldingarður lífsins í vorsins blóma stóð.
Nú löngu grafið minni um ýmsa dapra daga.
í Dvalins salarkynnum, ég móta þetta ljóð.
Seinasta sunnudag í vetri 1974.