Vordagur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Á Miðnætti eg horfi á Húnaflóa
og honum nær, á vorsins kunna sýn.
Hans öldufaldar líkt og gullið glóa
en grafkyrrt Hópið eins og strokið lín.
Þótt sólin virðist synda í ægisdjúpi
hún sveipar geislum hæðir, leiti og börð
en perlu glitra djásn á daggarhjúpi
sem dregið hefur nótt á græna jörð.
2.
Að fela sól, er færir sig að að Óttu
ei fjallið inn af Skagatánni nær
og yndis hennar alla þessa nóttu
því undirlendið breiða notið fær.
Eg lít til allra Ásabyggðar hæða
en um þær greinast fögur skuggabönd
þótt rósum ofin liggi dalalæða
um Langadalinn, Þing og Skagaströnd.
3.
Og fólk hins Miðja morguns hlýðir kalli
að mæta, hver til verks í sínum reit.
Hann eyðir skuggavef úr Vatnsdalsfjalli
og Vatnsdalshóla óteljandi sveit.
En vallarblómin morgunfögnuð finna
þau fegra bratta rúnum skorna hlíð.
Og það er eins og með því vilji minna
á merka sögu dalsins fyrr á tíð.
4.
Þótt Dagmál stundum veðurvonir brjóti
þá veðurfræði staðföst reynsla gaf
að þá er ljóst hvort þurrks og sólar njóti
hvort þoka verði, regn og skýjakaf.
Og nú er ekki nokkur þörf að kvíða
á næstu stundum gengur allt í hag
því sama veður: sólskin, logn og blíða
mun sannarlega endast þennan dag.
4.
Á Hádegi er hæst á lofti sólin
og hennar vegna líf og sumar til.
Í mótsetning er myrkurs vald um jólin
þótt máttur þeirra glæði von og yl.
En Víðidals- er vorklætt stendur fjallið
sem vilji lyfta armi að sólarrönd
það öðru betur finn eg til þess fallið
að frægt það gera Kjarvals listahönd.
5.
Um Nón eg horfi næst á Víðidalinn
þar nam hann Auðunn, sagan vitni ber.
Og síðan hefur sannast verið talinn
með sæmilegri byggð á landi hér.
Eg kost hans tel, við aðra miðað, mestan
hve mikla og fagra útsýn þar eg finn.
Á Björgunum sem byggja hann að vestan
er Borgarvirki og Óspakshellirinn.
6.
Þá Miðaftans að marki sól er runnin
nær miðju Vatnsnesfjalli reynist það,
hún sér af kappi dagsins önn er unnin
og áfram starfar hver á sínum stað.
En Vesturhóp í þeirri átt eg þekki
og þaðan bárust lýð á heillastund
til gagns og sóma, laus við flækjuflekki
hin fyrstu skráðu lög á vorri grund.
7.
Já, nú fer senn að Náttmálum að líða
og næturkælan fer að döggva svörð.
Eg þakka fyrir blessað veðrið blíða
sem boðar nægtagras um alla jörð.
Um Vatnsnes allt er vafið geislatrafi
þar vaggar draumlynd báran æði og kóp
og þannig get eg til að heilsað hafi
er Hringur sigldi inn í Vesturhóp.