Á Langadalsfjalli | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Á Langadalsfjalli

Fyrsta ljóðlína:Feta ég fornar slóðir
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Feta ég fornar slóðir
finn mína gömlu vini.
Fjallsins heiðríki heimur
heilsar í aftanskini.
2.
Hábrýndir Hrafnaklettar
hreykja sér yfir dalnum.
Smáhrun í hengiflugi
hljómar í klettasalnum.
3.
Man ég Gilsdalinn djúpa
og Dýhóla mosa-flæði.
Blámelur nokkru neðar
nemur við gilin bæði.
4.
Vatnadalurinn væni,
verpa þar álftir á bakka.
Í Hraunbrekku hrossin og rjúpan
sig hópa í grösugum slakka.
5.
Efst upp á fjallinu finn ég
fallegar grámosabreiður.
Við Stórhól er stórgrýtis-urðin,
þar steindepill gerir sér hreiður.
6.
Af Brúnum ég lít yfir landið
- liðið er senn að kveldi:
Húnavatn, Hópið og Flóinn
hjúpuð í kveldsólareldi.