Í Hrútey | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Í Hrútey

Fyrsta ljóðlína:Góðviðrið húnvetnskan huga minn friðar
bls.2005 bls. 25-26
Viðm.ártal:≈ 2000
Flokkur:Náttúruljóð
Góðviðrið húnvetnskan huga minn friðar
í Hrútey ég staddur er.
Með Blöndustrauminn á báðar hliðar
ég brosi og uni mér.

Ég vildi svo feginn njóta næðis
á náttúrufögrum stað.
Í hreinu algleymi hugarflæðis
og hér get ég öðlast það.

Því eyjan litla mér beð sinn býður
og boðið er svikalaust.
Þó umhverfis mig sé straumur stríður
er stöðumat hennar traust.

Ég get því öruggur höfði hallað
og hugsað um hvað sem er.
Hér getur allt það á andann kallað
sem ylinn í hjartað ber.

Ég uni við náttúru tóna tæra
og tjáningarstefin greið.
Og upplifi líkt og kossa kæra
í kringum mig - hér um leið.

Að huganum safnast hlýjar myndir
sem horfa svo beint við mér
að heimurinn allur - með sínar syndir
er síður til angurs hér.

Ég leggst því á bakið og horfi hljóður
til himins í sælli trú.
Ég veit sem aðrir að Guð er góður
og gefur mér von í bú.

Ég þarf ekki að óttast eða sakna
til ævinnar sólarlags.
Þó sofni mitt líf - ég lífs mun vakna
í ljósi hins nýja dags.

Ég Skapara mínum treysti og trúi
og tel það í öllu rétt.
Hann vakir í mínu vonarbúi
og vermir þar sérhvern blett.

Við ilminn af trjám og gróðri grænum
ég gleðst því á friðarstund.
Því Herrann veit af þeim hjartans bænum
sem hljóma frá sálargrund.

Svo allt er á vegi vonargóðum,
það vermir mitt rauða blóð.
I Hrútey - perlu á heimaslóðum -
er hamingja að yrkja ljóð.
(Ljóðið er tileinkað Jóni og Þórhildi Ísberg)