Í lystigarði dagdraumanna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Í lystigarði dagdraumanna

Fyrsta ljóðlína:Ungur sigldi Einar frændi minn
Viðm.ártal:≈ 2000
Ungur sigldi Einar frændi minn
í kjölfar Leifs heppna
Cólumbusar og Stephans G.
í leit að fé og frama.
Ungur, ráðvilltur flóttamaður
flýði hann glámsaugu fortíðarinnar
mýrarfenin, baslið, kuldann
peysuna og skinnskóna.
Hann lagði af stað
með vonina sem farareyri
og dagdraumana að veganesti.
Einar frændi minn
sem var svo draumlyndur
og latur:
Hann sem hugsaði svo hátt
en varð að lúta svo lágt.
Einar frændi minn sem spilaði
á harmoniku
og elskaði vorkvöldin björtu
en óttaðist dalalæðuna
Einar frændi minn
sem þráði sólskin
viðhöfn og glæsileik.

Í höfði sínu reisti hann hallir
umkringdar lystigörðum.
Lengst í vestri – í hillingum
handan við fjöllin
og kvöldroðann
sá hann morgun frægðarinnar!
Í Vesturheimi
gætu allir orðið ríkir.
Í Ameríku
yrði sérhver draumur
að veruleika.
Einar frændi minn ætlaði að lifa
með glæsibrag.
Hann ætlaði að verða ríkur.
Hann ætlaði að ganga djarflega
um stræti og torg
í hvítum sumarfötum
með hvítan, barðastóran hatt
á höfði
og hvíta hanska
á höndum
sveiflandi silfurbúnum staf.
Nafn hans mundi prýða
forsíður heimsblaðanna.
Einar frændi minn ætlaði
að bera höfuðið hátt.
Hann ætlaði að spila á harmoniku.
fyrir heiminn.
Hann þekkti stóru nöfnin:
Morgan, Rockefeller, Wanderbilt.
Og Ford sem smíðaði bílana.
Að ógleymdum – Al Capone!
Í Ameríku væri
sífellt sumar.
Einar frændi minn ætlaði
að vera sólarmegin.
Hann ætlaði að höndla gæfuna
verða frægur
og dáður
og ríkur!

Hann ætlaði að lifa hratt og lengi
í landi tækifæranna.
Hann sá fyrir sér blöðin
sem bærust heim í sveitina
– sveitina þar sem hrímþokan grúfði
yfir sálinni
og næðingurinn frá Íshafinu
nísti merg og bein
og þreyttir menn
á vondum skóm
örkuðu eftir grýttum vegleysum.
Tíminn og Ísafold og öll hin
mundu birta myndir af honum
í hvítu fötunum
með hvíta hattinn
sveiflandi silfurbúna stafnum.
Hann sá fyrir sér svipbrigðin
heima í þröngum baðstofunum.
Á förnum vegi
hefði hver eftir öðrum:
Hann Einar blessaður
hann kvað vera orðinn stórauðugur!
Hann kvað vera bæði frægur
og dáður!
Hann kvað vera orðinn kunnugur
öllu heldra fólki á staðnum!
Hann kvað vera . . .!

Ótrauður lagði Einar frændi minn
á djúpið.
Hann sigldi í vestur.
Dögum saman var siglt
í vestur
í kjölfar Leifs heppna
Cólumbusar og Stephans G.
Blikandi úthafið
baðað í sól
kom á móti honum.
Framtíðin mundi taka hann
í faðm sinn.
Rósrauð biðu fyrirheitin
eins og ævintýr bernskunnar
eins og prinsessan
karlssonarins!
Nýi heimurinn vænti hans.
Hvernig gæti Winnipeg
án hans verið?
Í svimandi fjarlægð
handan við ystu sjónarrönd
beið allsnægtalandið
land Fords sem smíðaði
bílana
land gullsins
land morgunroðans og
– Al Capone!

En Einar frændi minn
varð hvorki frægur né ríkur.
Hvítu fötunum
klæddist hann aldrei.
Harmonikan varð eftir heima.
Peysan fylgdi honum.
Í Winnipeg var hann skráður
– daglaunamaður!
Aldrei mætti hann Al Capone.
Og aldrei sá hann Ford
sem smíðaði bílana.
Næturnar í Ameríku
voru dimmar
dagarnir sóttheit martröð.
Einar frændi minn
draumlyndur og værukær
varð að taka til hendinni!
Honum var skipað upp á húsþök
látinn mála húsþök
sitja og standa á húsþökum.
Hærra komst hann ekki!
Hitasvækjan var kæfandi.
Sálin ódauðleg sljóvgaðist.
Þreytta hendur féllu máttvana
með síðum.
Eins og Skugga-Sveinn
gat hann sagt:
Mig sækir svefn.
Einar frændi minn
vakti á húsþökum.
Að honum sóttu svipular
kynjamyndir.
Hillingaland æskunnar
var orðið þokugrátt.
Sölnuð voru blómin
í lystigarði dagdraumanna
skýjaborgir dýrlegu
duft og aska.

Flúinn heim frá Ameríku
heim í þokuna
og þræsinginn
gamall, sköllóttur
skeggjaður, vonsvikinn, bugaður
gekk Einar frændi minn
bæja á milli
með lúinn strigapoka á baki
gisti hér og þar
þáði mat og drykk
þakkaði hæversklega fyrir sig
bandaði frá sér
skuggum fortíðarinnar
strauk af höndum sér
ásókn og sendingar
varpaði ekki orði á aðra menn
svaraði út í hött.
Á vorkvöldum björtum
horfði hann í leiðslu
út yfir Húnaflóann
þar sem kvöldsólin bjarta
sveipaði hafið og fjöllin
sínum dimmrauðu purpuratjöldum.
Ef til vill var það
– Ameríka!

Einar frændi minn
tók upp stafkarls stíg.
Í pokanum bar hann
aleiguna:
Fataleppa, kandísmola
í rauðum snýtuklút
til að gleðja lítinn snáða.
Og eina bók!
Bók í bláum sirting.
Bók sem enginn skildi
nema Einar frændi minn
sem aldrei las!
Framandlegt heiti hennar
byrjaði á The.
Ef til vill bjó hún yfir
leyndarmálinu
um Einar frænda minn
í Ameríku?

Til hinstu stundar
gekk Einar frændi minn
bæ frá bæ
með poka á baki
gamall, sköllóttur, skeggjaður.
Til hinstu stundar
talaði hann við sjálfan sig
rak óhreinan slæðing
af höndum sér
og rétti ljóshærðum smádreng
kandísmola.
Til hinstu stundar
leitaði hann að landi
gullsins
og morgunroðans.
Til hinstu stundar dreymdi hann
hillingalandið
sem hann aldrei
fann!