Hret | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hret

Fyrsta ljóðlína:Fölnuð er liljan og fölnuð er rós,
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Fölnuð er liljan og fölnuð er rós,
fölnað er himinsins blessaða ljós;
hnípinn er skógur og hnigið er bar
hám sem að áður á björkunum var.
2.
Stynja nú biturri stofnar í hríð,
stirðnaður lækur í blómlausri hlíð;
himinninn fær ei að fella nein tár,
frosti hann grætur, það hagl er og snjár.
3.
Eins ertu þornuð af augunum mín,
ástsæla táranna lind sem að skín
annars í heiminum huggunarrík,
himnanna drykk ertu sannlega lík!
4.
Man ég það áður, um æskunnar tíð,
ofan um kinn streymdi báran þín fríð!
Hún var svo beisk en svo himnesk og tær,
huggaði mig og hún var mér svo kær.
5.
Viðkvæma, barnlega vætti hún kinn,
var það hinn einasti huggarinn minn;
út streymdi sorgin og inn streymdi ró,
eymdin og reiðin í hjartanu dó.
6.
Allt eins og dögg vætir ilmblómin ung,
ofan þau hneigjast að jörðunni þung,
rísa svo aftur í eyglóar yl,
upprisin lyfta sér himinsins til:
7.
Döggin svo harmanna braust mér um brár,
blikandi æskunnar huggunartár;
þá var ég ungur, ég gekk mig og grét,
gráturinn sorgina hverfa mér lét.
8.
Nú ertu þornuð, mín ljúfasta lind!
Líður nú stormur af snjóugum tind!
Fáein ef skyldi nú falla mér tár
frjósa þau strax eins og hagl eða snjár!
9.
Lífsins á heiði í helkulda blæ
huggun ég enga af tárunum fæ!
Döggin er huggandi þó hún sé þung,
þýðir upp líf meðan rósin er ung.
10.
Gerðu mig aftur sem áður ég var,
alvaldi guð, meðan æskan mig bar!
Gefðu mér aftur hin gulllegu tár!
Gefðu að þau verði ekki hagl eða snjár!