Vísur Ingibjargar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísur Ingibjargar

Fyrsta ljóðlína:Hvort er betra bullið eða þögnin?
Viðm.ártal:≈ 1950
Vísnaþáttur Dags:
Ég hafði beðið Ingibjörgu Sigfúsdóttur
frá Forsæludal um nokkrar vísur. Nokkrum vikum síðar rættist ósk mín og er fyrsta vísan þessi:
Hvort er betra bullið eða þögnin
þá bíður Jón og væntir svars frá mér
En gleymd og týnd og urin óðargögnin
og ekkert til sem nokkurs virði er.

Næsta vísa bendir til lítillætis gagnvart þingeysku skáldi:
Þeim sem muna Þuru-garð
þakinn berjalyngi
finnst vart húnvetnskt hagabarð
hæfa Þingeyingi.

Ingibjörg býr á Blönduósi. Þar er mun svalara en í Vatnsdal:
Gleði bagar fjúk og frost.
Fáum lag á munni.
Yrki brag við auman kost
ein á hagleysunni.

Þó að varnir þyngi snær
þyki harðna róður
undir hjarni ennþá grær
andans kjarnagróður.

Eftir að Björn S. Blöndal frá Grímstungu hafði flutt Ingibjörgu nokkrar stökur kvað hún:
Svo frá drengjum hreinan hljóm
hér má enginn finna
þráði ég lengi ljúfan óm
ljóðastrengja þinna.