Vísurnar nafnlausar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísurnar nafnlausar

Fyrsta ljóðlína:Sat eg ær og sótti hross
bls.2
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Höfundur yrkir um 15 fyrstu ár ævi sinnar.
1.
Sat eg ær og sótti hross
sópaði upp hey hjá baulum
sá var leiður lífsins kross
löngum ungum staulum.
2.
Bar inn tað og bisaði í mó
band og hár nam tvinna
sótti vatn í silungsþró
svo var drengsins vinna.
3.
Mölvaði sprek og mokaði snjó
mýldi stóð á heiðum
þandi hest um þýfðan mó
þá varð flest að leiðum.
4.
Rann á skíðum, reyndi sund
við rekk er betur kunni
renndi á skautum stund og stund
stefin kvað af munni.
5.
Laumu, gosa, lomber, vist
lét mér vel að spila
þetta fernt var þjóðarlist
því eg hélt til skila.
6.
Þá hef eg talið afrek öll
upp til fimmtán ára –
Síðan leikið lífs um völl
lengst með snilldarklára.