Bærinn á eyrinni | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Bærinn á eyrinni

Fyrsta ljóðlína:Fjörðurinn eyjanna fagur og ljómandi
Heimild:Súlur.
bls.44. hefti 2005 bls.6-7
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Fjörðurinn eyjanna fagur og ljómandi
ferðamenn heillar svo gleðin er hljómandi.
Héraðið brosir með brekkum og grundunum
blómstrandi hlíðum og gróandi lundunum.
Bæirnir sviphreinir, bjartir og laðandi
búendur frjálsir í sólgeislum baðandi.
Vinna þeir djarfir með vakandi þorinu
vaxandi krafti í sérhverju sporinu.
2.
Bærinn á eyrinni huga vorn hrífandi!
Hamast þar verksmiðjur iðnaðinn drífandi
höfuðstað Norðurlands húsin vel sómandi
hreinlegar götur og staðurinn ljómandi
hendur fram réttandi kærleikans kjörendur
klæðandi skrúðinu listanna gjörendur.
Blóma- og trjágarðar blasa við augunum
bætandi, styrkjandi aflið í taugunum.
3.
Akureyrar í skóginum skínandi
skuggar úr hugunum flýja burt dvínandi.
Stórtrén ar gnæfa á feðranna foldinni
festandi rætur í norðlensku moldinni.
Loftið er heilnæmt af sætleika svalandi
sumardagsgolan kær vinarorð hjalandi.
Ber af hreinleik sá bærinn með sómanum
baðaður sólgeislans miðnæturljómanum.
4.
Í júní er bærinn í skærasta skrúðanum.
Skína þá geislar í daggperluúðanum.
Líf er þá indælt í blómanna brekkunum
brosa þar hópar af meyjum og rekkunum.
Pollurinn speglandi broshýru byggðina
ber þar allt vottinn um falslausu tryggðina.
Fegursti bærinn á landinu ljósanna
ljómar í skartklæðum gullfögru rósanna.
5.
Glaðlegt er fólkið og lipurt í lundunum
léttbrýnir svipir og þróttur í mundunum.
Þeir sem að grætt hafa grösin með ljómanum
greiðast nú launin með hróðri og sómanum.
Þó veturinn herji á hjartað úr landinu
hríðarnar geisi menn verja sig grandinu.
Því vorin þau frelsa úr fannanna díkinu
fegursta bæinn í íslenska ríkinu.


Athugagreinar

Þegar rótarýhreyfing á Íslandi hélt umdæmisþing sitt á Akureyri nálægt byrjun sólmánaðar 1989, var einn liður hátíðarkvöldvöku þingsins flutningur ljóðs, sem bar heitið Bærinn á eyrinni. Höfundur þess var Jón Guðmundsson, lengst af kenndur við Hólmakot í Hraunhreppi á Mýrum, en flytjandi bróðursonur hans, Bjarni Valtýr Guðjónsson, félagi í Rótarýklúbbi Borgarness. Ekki er vitað hvenær ljóð þetta varð til, en það er ort undir sama bragarhætti og Illugadrápa Stephans G. og mætti jafnvel nefna það ljóðfórn helgaða Akureyri svo mjög, sem höfundur virðist hafa hrifist af hinum fagra bæ.