Fertug bróðurdrápa – í tilefni afmælis Guðmundar Ingva Sigurðssonar hrl. 16.6. 1962 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Fertug bróðurdrápa – í tilefni afmælis Guðmundar Ingva Sigurðssonar hrl. 16.6. 1962

Fyrsta ljóðlína:Úr sama hreiðri en ekki eggi
bls.89
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Afmæliskvæði
Úr sama hreiðri en ekki eggi
ultu hrafnsungar
angar Sigurðar.
Frjáls í burtu dóttir fló.
Elstur Óli axlabanda
og lampaglasa-ljós
á hann þeirra mestan anda
í niðursuðudós.
Annar Ölli, ólmur foli
og reikull kúnstnari.
Sá er mestur þeirra svoli
og sjálfsagt fúskari.
Yngstur Steini, ærsladraugur
autoritet um margt
ljúft er að vera letihaugur
en lifa í dýrð og pragt.
En bróðirinn bjarti og ljósi
ber hann þeim öllum af
glatt flýgur frækinn fjósi
yfir fjórða tuginn í dag.
Feitur og fyrirmannlegur
með frjálsmannlegum brag
fallegur framan og fyrir
fékk á sig annað lag.
Dæmdi hann dela og dóna
djarflega slag í slag
gangstera og gamla róna
Guðmundur kann sitt fag.
Sá kann að skera skóna
skjólstæðingi í hag.
Hann talar á milli hjóna
og hórdómsbrotin ver
lýsir af ljúflingsljóma
um leiðina sem hann fer.
Með bróðurkveðju
Öggur skröggur.