Heim (brot) | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Máist varla minningin
mjöll þó falli um dalinn;
hún er að kalla huga minn
heim í fjallasalinn.
2.
Sól og gróður sælunnar
svæfðu óðar harminn
ylinn góðar átti´ eg þar
upp við móðurbarminn,
3.
Bjartsýn öndin engu kveið
amaböndin sneyddi
forðaði gröndum fram á leið
föðurhönd, sem leiddi.
4.
Helgan náttstað honum bjó
hinsti sáttaboðinn;
þá var fátt sem færði ró –
fallin máttarstoðin.
– – –
5.
Enginn glaumur glapti frið
gerðist naum hver vika;
líkt og í draumi lék ég við
lækjarstrauminn kvika.
6.
Yndisfagurt allt þá var
auðnuhag að styðja;
fyrstu laga lét mig þar
ljóðin bragagyðja.
– – –
7.
Eg er sekur, sveit mín kær!
Sviða vekur aminn.
Enginn tekið aftur fær
æskubrekin framin.
8.
Böl þá herjar, bið eg sól
blóm að verja gróin
lautu hverja, læk og hól
líka berjamóinn.
– – –
9.
Ævi- búin brátt er stund;
bið eg trúin vaki.
Smalaþúfu, hest og hund
hef eg nú að baki.