Vor í Skagafirði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vor í Skagafirði

Fyrsta ljóðlína:Frá ljóssins bogabraut
bls.185-187
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Frá ljóssins bogabraut
fer blámans hilling enn
um Skagafjarðarskraut
og Skagafjarðarmenn.
Sú nótt sem birtu ber
á bratta norðurströnd
hún geislar hvert eitt gler
og gyllir búans lönd.
2.
En ströndin hrein og heið
sem hófmarksboginn strár
og bindur sundin breið
við bjargfuglseyjar þrjár.
Sem eilífð ysta grunn
þar auga dauðlegt sér
er aftansól við unn
til árdags beygja fer.
3.
Það dreymir nýjan dag
með daggarskrúð á jörð
og unaðs óma slag
um allan Skagafjörð
er himinheiðið fer
um hárra fjalla barm
og vorfugl varpar sér
á víðáttunnar arm.
4.
Þeir dáðu hin dýru vín
og dáðu fagra mey.
Með glögga sólarsýn
þeir sögnum gleymdu ei.
Þeir vöktu vísdómsorð
um vetrarkvöldin löng.
Á andans breiðu borð
þeir báru ljóð og söng.
5.
Þá glumdi Vallhólms grund
og gustaði um skeið.
Svo hló við hestum sund
um Héraðsvötnin breið.
Og eins um auðnir lands
þeir áttu kosta völ
og stýrðu för án strands
um Stórasand og Kjöl.
6.
En hver um flúð og fjöll
sig færir á annað svið
í gegnum atvik öll
og athafnanna klið
hann man þá fögru fold
þá fáksins móðurjörð:
Hvar hófur markar mold
hann minnir á Skagafjörð.