Skagafjörður – (brot) | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Skagafjörður – (brot)

Fyrsta ljóðlína:Skagafjörður, byggðin bjarta
bls.127-130
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Skagafjörður, byggðin bjarta
bernskufoldin kær
þar sem létt að lagarhjarta
líða Vötnin tær
þar sem fjöll með faldinn gljáa
faðma vog og ból
göfug minning gildra áa
gylllir Tindastól.
2.
Hver er sá sem gleymt þér getur
gullna æskubyggð?
Þinnar sögu lífsins letur
lýsir von og tryggð.
Ystu tindar, innstu dalir
óma þína frægð.
Vogar, engjar, vellir, salir
votta skjól og nægð.
3.
Hjaltadalur, Hólakirkja
helgra sagna ból.
Fræga skjólið fornra virkja
fágað mennta sól.
Miðaldar í villu viðjum
viskuljós þitt skein
þegar landsins þrengdu niðjum
þúsund tár og mein.
4.
Lít ég fríða Flugumýri
frægðin gyllir hlíð.
Kolbeinn ungi, kappinn dýri
knár þar stýrði lýð.
Þarna líka Gissur gisti
gildur fyrr á tíð
víf og sína sonu missti
svart við brennustríð.
5.
Forni, gildi Glóðafeykir
garpadögum frá
manstu þegar risu reykir
rótum þínum hjá?
Örlygsstaða hörð var hildi
hrukku þér ei tár
þegar stálin stungu skildi
Sturla lagðist nár.
6.
Aldin skarpar brúnir bretta
Blönduhlíðarfjöll.
Hlær við sjónum hauðrið slétta
hólmar, vatnaföll.
Fríðar elfur falla hreinar
fram að ránarbing.
Þar sem fyrrum svinnir sveinar
sátu Hegraþing.
7.
Höfðastrandar hof og salir
horfa flæði mót.
Háir tindar, hraun og dalir
hlíðin Sléttu, Fljót.
Voldug gnæfa vestan megin
vegleg fjöllin blá.
Yst þar mænir öldum þvegin
aldin Skagatá.
8.
Stóra-Vatnsskarð, Víðimýri
valdi fornu tryggð.
Geldingaholt og Glaumbær dýri
gullin Staðarbyggð.
Tungusveit og djúpir dalir
dunar Jökulsá.
Hátt þar mæna hamrasalir
hlíðum bröttum frá.
9.
Silfrastaði sólin roðar
syngur Norðurá.
Fjallakveðju firði boða
freyða gljúfrin há.
Miklabæ og Víðivelli
vegleg sýnir byggð.
Skín á hverjum hnjúk og felli
hagsæld, von og tryggð.
10.
Heill þér, fríði fjörður Skaga
forna listaból.
Friður, lán og frægðarsaga
faldi Tindastól.
Kynsæld þín frá kappadögum
krýni þjóðlífsvöll.
Kær þú verður meyjum, mögum
meðan gnæfa fjöll.