Hulduljóð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hulduljóð

Fyrsta ljóðlína:Yfir frosna fannaslóð
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Yfir frosna fannaslóð
fölur máninn skín.
Ljósum yfir leiðum
leiftrar hugarsýn.
Álfamær ung og fríð
yndis vekur þrá.
Heillaður ég hennar ástum hugðist ná.
2.
Laðar mig hin ljúfa mær
leikur gígjan þýð.
Í eyrum mínum ómar
elskuröddin blíð
Sit ég einn svala nótt
seiddur af þeim óð
Þótt árin líði hugann heilla huldunnar ljóð.
3.
Ískristalla leiftrar ljós
leikur ómur skær.
Álfaheim mér opnar
yndisfögur mær.
Hugljúf sýn, hrein og björt
heita vekur þrá
Huldumærin hug minn bæði og hjarta á.
4.
Mælir hún svo munarblíð
merluð tunglskinsglóð:
„Leiddu mig minn ljúfi
lífs um ævislóð.“
Seiða mig, söngvar þeir
svannans brjósti frá
Í hennar örmum hjartað berst af heitri þrá.
5.
„Fylgdu mér í hulduheim
hjartans vinur kær
þar eiða sverjum okkar
sem ekkert rofið fær.“
Brosti mær blítt við mér
blika augu skær.
Ég hikaði þá hvarf hún mér mín huldumær
6.
Hverful líða æviár
ómur fagur deyr.
Álfameyna ungu
aldrei sé ég meir.
Horfin er huldan fríð
hamraborgin læst.
Aldrei geta æskudraumar okkar ræst.