Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (725)
Ástarljóð  (8)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (11)
Gamankvæði  (12)
Háðkvæði  (5)
Heilræði  (1)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (7)
Húnvetningar  (6)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (2)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (47)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Skáldsþankar  (30)
Strandir  (2)
Söguljóð  (10)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (2)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Þorravísur 1945

Fyrsta ljóðlína:Hylur leiðir hríðin dimm
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Hylur leiðir hríðin dimm
hlýju eyðir vorri
hrönnin freyðir há og grimm
heilsar reiður þorri.
2.
Sínum korða svalur brá
sig um storðu þandi
heyjaforðann herjar á
hér á Norðurlandi.
3.
Þjaka löngum veðurvöld
vetrar svöngu gestum
eru föngin ill og köld
útigönguhestum.
4.
Von í hjarta vekur sól
vetri margt þó lúti.
Fjöllin skarta klakakjól
kalt og bjart er úti.
5.
Horfinn rosti, hafið stillt
heitir kostum góðum.
Sólin brosti í morgun milt
minnkar frostið óðum.
6.
Héla á glugga, hnípið láð
hér til muggu dregur.
Norðri bruggar nöpur ráð
nú er hann skuggalegur.
7.
Þykkjubólginn þorri er
þýtur í sólgnum hvofti.
Brimið ólgar upp á sker
enn er kólga í lofti.
8.
Geislar klárir greikka stig
glaður tárast dagur.
Hefir báran hægt um sig
himinn blár og fagur.
9.
Þorri um fjall og flata gljá
feldinn mjallar breiðir.
Úti er falleg sjón að sjá
sól um allar leiðir.
10.
Vakir þrengjast, þorri snjall
þunga lengir dóma.
Niðrum engjar, fram um fjall
frostsins strengir óma.
11.
Kalt og bjart hér úti er
örlar vart á hnjótum.
Er nú þarft að eiga sér
yl í hjartarótum.
12.
Fljóða kennir kosta hér
kulda enn þau skáka.
Fagna menn, því úti er
eldri kvenna hláka.
13.
Sólar háu lýsa log
léttast sjáum sporið.
Breyta má ei eðli– og
alltaf þrái ég vorið.
14.
Þorra hvæsir hvofti í
krapi ræsin hleður.
Bárur æsir upp á ný
austan þræsingsveður.
15.
Svipur Ránar silfurskær
– sjómanns skánar hagur. –
Yfir gljána geislum slær
glaður mánudagur.
16.
Nöldrar gjóla norðri frá
næðir um hól og gilin.
Virðast skjólin vera að fá
vantar sólarylinn.
17.
Æskan vösk nú eykur hark
úti er röskur slagur.
Elli blöskrar þetta þjark
það er öskudagur.
18.
Vonir glæðast glaðar hér
gamlar ræður flíka:
átján bræður eigi hann sér
alla að gæðum líka.
19.
Þorri að lokum syngur svalt
sýnir hroka kunnan.
Skjól í fokið, furðu kalt
frost og rok á sunnan.
20.
Sjatna brátt mun svell í hlíð
sólaráttin vinnur.
Þorri í sátt við land og lýð
lokaþáttinn spinnur.
21.
Á vetrarslóð þó væri kalt
vitni ljóðið bæri.
Játar þjóðin, þrátt fyrir allt
þorri góður væri.