Strákarnir réru | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Strákarnir réru

Fyrsta ljóðlína:Kallar særinn þor og þrótt
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Kallar særinn þor og þrótt
þroskar ærinn vandi.
Sefur bærinn blítt og rótt.
Bátur rær frá landi.
2.
Hásigld skeið við himinrönd
hæru greiðir unnar.
Útþrá seiðir hug og hönd
hetjuleiðir kunnar.
3.
Seglum tjalda hrófahún
hátt í kalda stígur
hvítra falda byltir brún
blátær alda hnígur.
4.
Gleði smátt þó leggi lið
lítils háttar föngin
alltaf mátti una við
ölduslátt og sönginn.
5.
Bandi vinda bjartri rún
brá á tinda niður.
Er að kynda árdagsbrún
alheims myndasmiður.
6.
Þá um hreina þorskaslóð
þukla steinavaðinn
miðin greina, beita bjóð
bátinn reyna hlaðinn.
- - -
7.
Halda drengir heim á leið
harða strengi barið

kvartar enginn, áraskeið
er þó lengi í varið.
8.
Hoppa kátar hrinur frá
heimalátrum mínum
hlaðinn bátinn ýra á
oft með hlátri sínum.
9.
Í háttinn Kári hraðar för
hljóðnar bárusogið.
Hreyfir gára í heimavör
hinsta áratogið.