Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (725)
Ástarljóð  (8)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (11)
Gamankvæði  (12)
Háðkvæði  (5)
Heilræði  (1)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (7)
Húnvetningar  (6)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (2)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (47)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Skáldsþankar  (30)
Strandir  (2)
Söguljóð  (10)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (2)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Kolbrún

Fyrsta ljóðlína:Heilluð öll mín hugsun er
Þýðandi:Hannes Hafstein
Heimild:Hannes Hafstein: Ljóðabók bls.103-108
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Ástarljóð
I

Kolbrún
1.
Heilluð öll mín hugsun er
hugur fanginn dregst að þér
hjartað töfrar fleira´ og fleira,
finnur andinn meira´ og meira.
2.
Þyrstur æ til þín ég vík
þér í sál er náma rík.
Milli rauðra gullsins greina
glampa sé ég eðalsteina.
3.
Gullnámskaldan grípur mig
glamrar allt á mínum stig.
Sólginn finn ég meira og meira
má þó til að kanna fleira.
4.
Nótt og dag og dag og nótt
dregst mín önd að sælugnótt,
eða kastast yst í myrkur
eitt er stöðugt: magnþrots styrkur.
5.
Hjartans blinda, heita þrá
hverfur aldrei meir mér frá
fyrr en náman öll er unnin
eða þráður lífsins brunninn.
IV

Fundurinn
1.
Hve man ég feginsfundinn!
Við fengum leynst á braut
og komum í leyndasta lundinn
við laufgra viða skaut.
2.
Ég man hve blærinn blakti
í blikandi laufa þröng
og óm að ofan vakti
sem ungra guða söng.
3.
Það þaut svo blítt í blöðum
í blænum vorið kvað
með angan frá ilmandi röðum
sem alls staðar vakti það.
4.
Svo hljóðnaði meira og meira
og myrkri um grundu sló.
En þó var ómur í eyra
af eyðiþagnar ró.
Elskunnar ástvakinn hljómur
í algleymi týndi sér.
Hugþekkur orðvana ómur
er aðeins geymdur hjá mér.
*
Nú er svo sárlangt síðan.
En síðan er öll mín lund
með ást sína, óð og kvíðan
ómur frá þeirri stund.
V

Draumur
1.
Kolbrún mín einasta, ástfólgna Hlín
mín aleigan dýrmætust löngu
svo ertu þá komin aftur til mín
um óraveguna ströngu.
2.
Nú ætlarðu´ að verða þá alltaf hjá mér
svo eldregi þurfum að skilja
og lofa mér una og unna þér
uns algleymis skuggarnir hylja!
3.
Svo dreymdi mig draum af nætur náð.
En nú er byrjaður dagur.
Á daginn er tregandi dapurt mitt ráð.
En – draumurinn var svo fagur.
VII

Undir nótt
1.
Nú skil ég það, sem býr við hafsins hjúp
og hrannaflóðsins endalausu vegi
því kvíði hjartans kannaði þess djúp
og kynjageiminn mældi hjartans tregi.
2.
Ég stóð í kveld við strönd og hnípinn sá
stormvaktar bárur yst í hafsbrún flýja
og stundarþrótt sinn hver tók hinni frá
hver hrönn, sem dó, varð magn í aðra nýja.
3.
Þá glóði hinsti glampi kveldsól frá
glóðheitum roða sveiptist unnar hylur
og roðinn minnti varmar varir á
sem voðageimur hafsins frá mér skilur.
*
4.
Nú veltur aftur aldan, dimm og gljúp
um endalausa skilnaðarins vegi
og kvíði hjartans kannar hafsins djúp
og kynjageiminn skilur hjartans tregi.


Athugagreinar

Þeir Bertel og Hannes skrifuðu tímaritið Verðandi, ásamt Einari Hjörleifssyni(Kvaran) og Gesti Pálssyni. Ritið kom út 1882. Bertel orti Kolbrún á dönsku en Hannes þýddi á íslensku.