Vegamenn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vegamenn

Fyrsta ljóðlína:Vegamenn eru vanir striti
Heimild:Blágrýti.
bls.88-89
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Vegamenn eru vanir striti.
Vanir mokstri með skóflu í hönd.
Orka þeirra og elja leggur
akstursbrautir um torfær lönd.
2.
Vegamenn eru vanir ýmsu.
Vegamenn eru kátir oft.
– Útsýn brosir á allar hliðar.
Yfir hvelfist hið bláa loft.
3.
Höggva, stinga og hlaða kanta,
hökum sveifla og berja grjót.
Dagur líður. – en draumur bíður,
draumur þeirra um stefnumót.
4.
Glæru flöskurnar geyma ylinn.
Gullnu veigarnar kjósa þeir.
– Syngja reifir í sæluvímu
söng um gleði, sem aldrei deyr.
5.
Kvöldi fegnir í hvítum tjöldum
kveikja á prímus og sjóða graut.
Hátta síðan í harðar rekkjur.
Hníga þreyttir í svefnsins skaut.
6.
Bílar koma og bílar fara.
Brautir lagðar og slitna senn.
– En að vegunum einatt starfa
ungir lífsglaðir vegamenn.