Syrgðu ekki | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Syrgðu ekki

Fyrsta ljóðlína:Syrgðu ekki sumarblómin
Heimild:Blágrýti.
bls.30
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Syrgðu ekki sumarblómin.
Syrgðu ekki von sem dó.
Táli lífs og tuddahætti
taka skalt með kaldri ró.
Syrgðu ei – því sorgir þínar
síst fá gert hið kalda heitt.
Gráttu ei – því tregatárin
tapast fyrir ekki neitt.
2.
Syrgðu ekki. Syrgðu ekki.
Sorg þín gleður óvin þinn.
Gráttu ekki, gaddur lífsins
gerir svala vota kinn.
Syrgðu ekki sælu horfna.
Syrgðu ekki draumaspjöll.
Bíttu á jaxl er vetrarveður
vonskast yfir lífsins fjöll.