Gamanbragur um rakstrarkonu Sigurðar á Hellulandi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Gamanbragur um rakstrarkonu Sigurðar á Hellulandi

Fyrsta ljóðlína:Nú skal kveða brellinn brag
bls.154
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Nú skal kveða brellinn brag,
bestu konu þessa lands!
Fágætt er, þú hefur hag
af hjákonu þíns eiginmanns.
2.
Áður varstu vot í hné
vikum saman, þreytt og köld.
Þurra og hlýja eg þig nú sé,
þótt þú rakir fram á kvöld.
3.
Bónda þinn hefur önnur elt
út um keldur, flóð og dý
og hraðvirk bæði og hagvirk velt
heyinu múga og drýlur í.
4.
Þriflega vann hún þetta starf –
því er heyið leirugt ei;
hálfu minni það nú þarf
þurrk, en annað mýrarhey.
5.
Hógvær þessi baugabrík
og býsna þurftarlítil er.
Aldrei kaupakona slík
komið hefur á teig hjá mér.
6.
Ef föður hennar fyndir þú
frægan Sigurð Hellulands,
kysstirðu eflaust karlinn, frú
með kærri þökk fyrir dóttur hans.


Athugagreinar

Í Búnaðarblaðinu Frey birtist árið 1923 gamanbragur um rakstrarkonu Sigurðar á Hellulandi sagður vera eftir bónda í Rangárþingi.