Fjallaþrá | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Fjallaþrá

Fyrsta ljóðlína:Fár veit hverju fagna skal
Heimild:Blágrýti.
bls.113-114
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Fár veit hverju fagna skal.
Fyrrum þráði ég byggð í dal.
Nú langar mig aftur upp á fjöll.
– Uni ei lengur við girtan völl.
Ég elska blæinn sem andar frjáls
– öræfablæinn sem strýkur háls.
2.
Frammi á heiðum við svanasöng
sat ég áður um dægrin löng.
Að enduðum söng, er ægðu rögn
anda minn snart hin djúpa þögn.
Er kafaldið fauk um kofann minn
kulnaði stundur eldurinn.
3.
Niður í sveit ég sótti eld.
Sat í skála er dimmdi kveld.
– Þá strauk mér ástmey um enni og háls,
sem öræfablærinn er þýtur frjáls,
er vorar frammi við vötnin blá
og vindurinn flytur hlýja þrá.
4.
Hún fjötraði mig við forlög sín.
Faðmur hennar var sæla mín.
Ég flutti bústað í byggðan reit.
Bjó við þrengsli í miðri sveit.
Eignaðist það sem ég unni mest.
– Aflaði þess er ég hugði best.
5.
Ástin fyrntist og úti varð.
Einmana þrái ég Vonarskarð.
Fagurt er upp við fjöllin há.
Frjálst og þögult við hraunin grá.
Hugarþrá mín á heima þar
– hún getur flúið byggðirnar.