Kveðja | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Kveðja

Fyrsta ljóðlína:Ég leita mín og hugsa þó um þig
Höfundur:Hermann Pálsson
bls.9-11
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Ég leita mín og hugsa þó um þig
á þreyttu kveldi eftir dagsins strit,
og senn mun heimur bregða björtum lit
og bráðum dynur nótt á þig og mig.
2.
Á þig ég lagði heita æsku ást,
þú áttir hverja taug í brjósti mér.
En fyrirætlun minnar bernsku brást,
mig bar að heiman ærið langt frá þér
3.
Þótt veröld fyrnist, þér ég einni ann,
mín ættjörð sæl við heimsins nyrstu brún,
því unaðslegri stað ég aldrei fann
en æsku minna þekku föðurtún.
4.
Í útlegð minni uni ég við það
að enginn getur tekið þig frá mér,
en vei sé þeim sem okkur skildu að
og örlendingu harða gerðu mér.
5.
Ég týndi mínu „heima“ í þessum heim
og hefi löngum síðan tamið mér
útlent tal með annarlegum hreim,
ókunnur gestur hvert sem komið er.
6.
Mér verður stundum staldrað við hjá þér,
þótt stöðugt færist ég í suðurátt
og norðrið taki að iðka annan hátt
en áður höfðu landar tamið sér.
7.
Á milli okkar sífellt breikkar bil,
því bernska mín í fjarska horfin er.
Um breiða ála, djúpan hafsins hyl,
minn hugur fer í kveld að leita að þér.