Atviksorð í þátíð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Atviksorð í þátíð

Fyrsta ljóðlína:Mig dreymdi að ég væri varla hér
Höfundur:Hermann Pálsson
bls.5
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Mig dreymdi að ég væri varla hér
og vissi ekki hót um sjálfan mig,
og því fór ég að hugsa helst um þig
og hætti í bili að leita neitt að mér.
2.
Nú varð mér spurn: Ó hvar er okkar hvar?
Ó hvenær verður annars staðar hér?
Því allt sem kemur einhvern veginn fer,
á endanum er hérna sama og þar.
3.
Ég spyr og ávallt fæ hið sama svar:
Í suðri getur norðrið tapast þér.
En fundum ykkar síðar saman ber
á sínum stað, þótt enginn viti hvar.
4.
Svo reikar hugur bæði hér og þar
um horfna leið sem gleymd og dulin er.
Ég yrki um það sem einu sinni var
og enga nútíð getur talið sér.