Húnaþing | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Húnaþing

Fyrsta ljóðlína:Hnignar gengi Húnaþingi
bls.98-100
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Hnignar gengi Húnaþingi,
hverfa drengir, þeir er lengi
fast að marki stóðu sterkir,
stirðnar glíma nú á tímum.
Byggðin fríða eyðist óðum,
út til stranda víða standa
býli í eyði, inn til hlíða
og í miðið leggjast niður.
2.
Lengst af tíma lítið gaman
lífgar hljóðar norðurslóðir
ei að síður sólmánuður
seiðir menn á vettvang þenna
sem þar fundu eigi yndi
er þá flæmdi burt og dæmdi
látlaust strit að litlum notum
leiði og dofi moldarkofans.
3.
Við, sem máttum verða eftir,
vanta yl, er gegnum þilin
milli lista mæddi gustur,
miðlum gestum inu besta,
litlum föngum fátæklinga,
fáir varðmenn heimajarða,
þykjumst vera því að meiri:
þraukað gátum, heima sátum.
4.
– Hérað vatna og stórra sléttna
starir móti ölduróti
brims að hausti bárur geystar
ber að landi inn við sandinn.
Enn er sefur Ægir, stafar
allan sjó á Húnaflóa,
strendur hillir uppi allar
undir dúnalogn í júní.
5.
Vestarlega Vatnsnes skagar
viku sjóar út í flóann,
er þá sanda undirlendi
inn af vog í mjúkum boga.
Fyrir botni fjarðar vötnin
fegra gera ið mikla hérað,
milli rísa ýmsir ásar,
á þeim kirkja og Borgarvirki.
6.
Lykt af sílum sjávargolan
sendir af víði inn til hlíða
mönnum kynnir auðlegð unna
angar þang við sker og tanga
þrílit fjóla frammi í dölum
flatir litir dýru gliti
jafnt á báðar hendur, heiði
hefst við botn er dalur þrotnar.
7.
Fjöllin rauðum skrýðast skrúða
skemmstu nóttu fyrir óttu,
Glóey sendir gullnum mundum
geislastafi inn frá hafi,
breiðu engin inni í Þingi
eru dökk sem væri rökkur,
bálin rauð á bæja rúðum
brenna víða undir hlíðum.
8.
Þessir eldar eru kaldir
en þeir glampa skær en lampar
eyðikota gluggar geta
geislum sindrað, ljósum tindrað
kaldur arin inni fyrir
eins og hart í brjósti hjarta
yl í fangið færir engum
fremur en sæluhús í kælu.
9.
Hvar er andi Ingimundar?
Auðnuleysi Grettis hreysa
yfir hvílir ýmsum sölum
yfir vofir mörgum kofa.
Ljótur urgur er í mörgum
ýmsa hyllir þá, er spilla
lifir enn ið sama sinni
sami þjóstur, orsök róstu.
10.
Þessi vandi þarf að enda,
þetta gengur ekki lengur.
Nóg er yndi í Norðurlandi,
nýbygging í Húnaþingi
taki við og eyðióðul
endurbyggist, mönnum tryggist.
Bændaóðul byggðust áður
best í þingi Húnvetninga.