Söngva-Borga | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Söngva-Borga

Fyrsta ljóðlína:Hestur rennur, hófur syngur
Heimild:Vökurím.
bls.14-16
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Hestur rennur, hófur syngur
hátt við freðin Ásasund.
Máninn teygir föla fingur,
flýja skuggar hratt um grund.
Heimþrá, dóttir heitra vona,
hikar ei við Blönduvað.
Barn og fögur, bjarthærð kona
bíða mín á Holtastað.
2.
Andardráttur öræfanna
undurmjúkt um dalinn fer,
blær úr heimi fjalla og fanna
flytur söng að eyrum mér,
söng, er tjáir sorg og trega,
sára kvöld og bæn um grið.
Andi, er reikar villur vega,
varnað hvíldar, þráir frið.
3.
Stirðnar Roði, stöðvast reiðin,
starir fákur, hnusar átt,
hlustum, nemur söngvaseiðinn,
sýpur hregg og frýsar hátt.
Augun skima, eyrun kvika,
ákaft jaxlar bryðja mél.
Beislisfroða beggja vika
bræðir frerans köldu skel.
4.
Eitt sinn fljóð, sem enginn virti,
úti varð á þessum stað.
Um afdrif hennar enginn hirti,
enda lítt að fást um það,
þó að gömul göngukona
gengi ein á Drottins fund
og kvæði sinna sigurvona
sorgarljóð á banastund.
– – –
Hljóðnar söngur. – Hljóma stríða
heyra ei lengur eyru mín.
Seint úr hug mér samt mun líða,
Söngva-Borga, minning þín. –
Vörpum, Roði, draum og drunga,
dokum ei við Blönduvað,
strauminn illa og ægiþunga. –
Enn er ljós á Holtastað.