Söngur Heklu Sambands norðlenskra karlakóra | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Söngur Heklu Sambands norðlenskra karlakóra

Fyrsta ljóðlína:Hefjum glaðir Heklusöng
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Hefjum glaðir Heklusöng
hjartaslögin undir taka.
Júnídægrin ljós og löng
leysa sál úr vetrarþröng
þó að væri stundum ströng
starfsins langa næturvaka.
2.
Látum drengir hljóma hátt
Heklusöng á miðju vori.
Tökum hverja sorg í sátt.
Sjáum aðeins heiðið blátt
svo við getum saman átt
söng í hjarta, blóm í spori.