Þorsteinn Jónsson söngstjóri | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þorsteinn Jónsson söngstjóri

Fyrsta ljóðlína:Við mættumst í söng er morgunsins fyrsti þeyr
bls.49-50
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Við mættumst í söng er morgunsins fyrsti þeyr
fór mjúklega um heimafjöll.
Og sveitin fékk annað yfirbragð þenna dag
var orðin að tónahöll.
2.
Hér bar okkur saman, óskylda einatt um margt,
en alla með sömu þrá,
að gætum við leyst úr álögum óskadraum,
sem oftast í stónni lá.
3.
Og hver okkar átti sinn eigin boga og streng
með ólíkan hreim og lag.
Þinn strengur var jafnan sterkur, bjartur og frjáls
og stef þitt með gleðibrag.
4.
Í fámennri byggð um vetrarkvöld vökulöng
er vorþránni stundum hætt.
Þá bregður ljóma á veginn hver söngfleyg sál
er sver sig í dagsins ætt.
– – –
5.
Nú hnípir hver söngfugl, rós er í runni bleik.
Það rökkvar um miðjan dag.
Af hljóðlátum trega vinur í síðasta sinn
við syngjum þér kveðjulag.
6.
Þótt heimti nú duft þitt héðan in nakta jörð
til hvíldar í mosasæng,
mun léttfleygur andi svifinn í sólarátt
á söngvanna ljósa væng.